„Við munum leggja af stað til Neskaupstaðar nú eftir hádegið og aflinn verður um 2000 tonn, þar af eru um 680 tonn fryst,“ sagði Halldór Jónasson skipstjóri á Polar Amaroq þegar heimasíða Síldarvinnslunnar hafði samband við hann nú eftir hádegi í dag, en þá var verið að taka síðasta hol veiðiferðarinnar.
„Þessi afli er fenginn í átta holum. Bestu holin voru fyrst en þá tókum við þrjú 300 tonna hol en síðan hefur aflinn farið minnkandi og í síðustu holunum hefur hann verið um 150 tonn í hverju holi. Þá hefur loðnan einnig farið smækkandi eftir því sem liðið hefur á túrinn. Ísinn hefur sótt að okkur og er búinn að hrekja okkur frá því svæði sem við hófum veiðar á. Við erum nú staddir um 100 mílur norð-norðvestur úr Horni um það bil 10 mílur inn í grænlensku lögsögunni. Við reiknum með að verða í Neskaupstað seint annað kvöld,“ sagði Halldór að lokum.
Þetta er annar loðnutúr skipsins á þessu hausti í grænlensku lögsögunni.