Blái herinn, Reykjanes Geopark og Samtök fyrirtækja í Sjávarútvegi (SFS) standa að hreinsunarátaki í Krossvík í tilefni af Degi hafsins þann 6. júní næstkomandi. Hreinsun Krossvíkur stendur frá kl. 13:00 – 15:00.
Á heimasíðu Bláa hersins segir að þeir sem vilja leggja átakinu lið eru boðnir hjartanlega velkomnir með í för.
Við bendum á að nota fjölnota hanska sem hægt er að þvo eftir hreinsunina, auk þess sem fjölnota innkaupapokarnir henta vel undir smærra rusl. Þá viljum við benda fólki á að vera í góðum skóbúnaði þar sem undirlag getur verið varasamt í fjörunni og klæða sig eftir veðri. Fiskikör verða á svæðinu til að losa úr pokunum. Eftir hreinsun verður þátttakendum boðið upp á hressingu.
Sérstaklega er vakin athygli á því að þessi hreinsun hentar yngstu kynslóðinni illa þar sem svæðið getur verið erfitt yfirferðar og það tekur um 25 mínútur að ganga í víkina. Þátttakendum er bent á að leggja bílnum sínum við bílastæðið við Gunnuhver að austanverðu, og ganga þaðan um slóða sem liggur í víkina.