Sumir frambjóðendur til Alþingis fyrir þessar kosningar hafa farið mikinn í lýsingum sínum á hreinum hagnaði útgerðarinnar sem þeir telja nauðsynlegt að gera upptækan að miklu eða öllu leyti. Þar hefur m.a. verið fullyrt oftar en einu sinni upp á síðkastið að hrein hagnaður útgerðarinnar sé 90 milljarðar króna á ári og er helst að skilja að hann renni óskiptur í vasa útgerðarmanna til persónulegra nota.
Sveinn Hjörtur Hjartarson hagfræðingur LÍÚ kvaðst í samtali við Fiskifréttir ekki vita hvaðan þessi 90 milljarða króna tala um hagnað útgerðarinnar væri komin. Hið rétta í málinu væri að svokölluð EBIDTA eða verg hlutdeild fjármagns í fiskveiðum árið 2011 hefði numið 41,9 milljörðum króna samkvæmt opinberum tölum. Þá væri eftir að draga frá afskriftir og vexti. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands hefði hreinn hagnaður útgerðar fyrir skatta verið 23,2 milljarðar árið 2011. Þá ætti eftir að borga af því 20% tekjuskatt.
,,Að loknum skattgreiðslum fer hagnaðurinn svo í arðgreiðslur og/eða fjárfestingar og endurnýjun á tækjum og tólum. Í þeirri óvissu sem ríkt hefur síðustu árin hefur útgerðin einbeitt sér að því að greiða niður skuldir og haldið að sér höndum í endurnýjun og nýfjárfestingum,“ sagði Sveinn Hjörtur Hjartarson.
Því má bæta við að hagnaður fiskvinnslu fyrir skatta var 21,7 milljarðar króna á árinu 2011, en nýrri tölur eru ekki tiltækar.