Hrefnuveiðimenn eru búnir að veiða 44 hrefnur í sumar. Tvær hrefnur voru veiddar í Faxaflóa á mánudaginn, að því er fram kemur á vef Hrefnuveiðimanna ehf.
Dýrin voru bæði mjög stór, annað tarfur og hitt belja. Magi hrefnunnar er fullur af makríl þessa dagana og mikil ferð er á dýrunum þar sem þau eru að elta makrílinn.
Veðurútlit er ekkert sérstaklega spennandi næstu daga en stefnan er sett á að fara í einn túr til viðbótar fyrir verslunarmannahelgi. Hrefnuveiðimenn veiddu 48 dýr í fyrra og fara því að nálgast þá veiði í ár. Ljóst er að veiðin verður meiri í ár.