Dröfn RE hóf hrefnuveiðar í gær og er hún fyrsti báturinn sem fer af stað þetta vorið. Halldór Sigurðsson ÍS er jafnframt að gera sig kláran fyrir vestan og heldur til veiða í þessum mánuði. Þá er verið að undirbúa þriðja bátinn til veiða í Kópavogshöfn og verður hann væntanlega klár í slaginn í byrjun maí.

Bátarnir eru allir gerðir út af Hrefnuveiðimönnum ehf. en að félaginu standa þeir menn sem hafa mesta reynslu af hrefnuveiðum hér við land. Í fyrrasumar leigði félagið bátinn Jóhönnu ÁR til veiðanna en nú hefur það fest kaup á Val ÍS, 100 tonna báti, sem verið er að breyta í hrefnubát.

Nánar segir frá hrefnuveiðunum í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.