Hafrannsóknastofnun leggur til að árlegar veiðar á hrefnu nemi að hámarki 224 dýrum á tímabilinu 2016-2018 og að árlegar veiðar á langreyði nemi að hámarki 146 dýrum árin 2016 og 2017. Vegna óvissu um stofngerð hrefnu og hugsanlegrar tregðu á blöndun milli svæða telur stofnunin æskilegt að dreifa hrefnuveiðunum innan landgrunnssvæðisins á grundvelli vitneskju um dreifingu hrefnu samkvæmt hvalatalningum. Því mælir stofnunin með skiptingu landgrunnsins í þrjú svæði með eftirfarandi hámarkshlutdeild af ráðlögðu hámarksaflamarki:
1. Vestursvæði (allt að 45%),
2. Norðursvæði (allt að 45%),
3. Austur– og suðursvæði (allt að 60%).
Í frétt frá Hafrannsóknastofnun segir að ákvörðunin um veiðikvóta hrefnu og langreyðar byggi á úttekt sem vísindanefnd Norður Atlantshafs Sjávarspendýraráðsins (NAMMCO) gerði á ástandi stofna hrefnu og langreyðar við Ísland og á aðliggjandi hafsvæðum (Mið Norður Atlantshaf) og birt var í skýrslu nefndarinnar í nóvember 2015. Til grundvallar þessari úttekt lágu öll tiltæk gögn um stofnstærðir og veiðisögu, en úttektin byggir á stofnlíkani sem þróað hefur verið af vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins (IWC) með varúðarnálgun að leiðarljósi.
Sem kunnugt er hefur hrefnuveiði við Ísland verið langt innan við 100 dýr undanfarin ár og tilkynnt hefur verið að engar veiðar á langreyði verði á þessu ári vegna söluvandamála.
Sjá nánar á vef Hafró.