Veiðum á norsk-íslenskri síld við Noregsstrendur fer nú að ljúka á þessu ári og samkeppnin um hráefnið fer síharðnandi. Í þessari viku fór hráefnisverð á síld yfir 7,50 norskrar krónur eða jafnvirði 154 íslenskra króna og er verðmet slegið nánast daglega á uppboðum norskra síldarsamlagsins.

Þetta kemur fram í Fiskeribladet/Fiskaren í dag. Flotinn er nú að veiðum utan við Troms og Finnmörku og eru aðeins 7% eftir af norska kvótanum. Skipum hefur því farið fækkandi dag frá degi. Eigi að síður veiddust um 30.000 tonn af síld í síðustu viku.

Haft er eftir sölustjóra norska síldarsamlagsins að sjómennirnir séu auðvitað ánægðir með þetta háa síldarverð en vafamál sé hvort vinnsluaðilarnir nái að hagnast. Vera kunni að þeir séu að teygja sig þetta hátt til þess að geta staðið við sölusamninga.