Þess er beðið að kolmunni fari að veiðast innan færeysku og íslensku lögsögunnar en veiðin fer nú að mestu fram vestanvert við Írland og á Hatton-Rockall svæðinu þangað sem er löng sigling. Á meðan háir verkefnaleysi sumum uppsjávarvinnslum á landinu vegna loðnubrestsins. Í Vestmannaeyjum hefur verið brugðist við með því að kaupa farma af erlendum skipum.

Heildarafli íslenskra skipa á árinu 2024 í kolmunna var 321 þúsund tonn sem var 10% meira en árið 2023. Á þessu ári er útgefið aflamark rúm 293 þúsund tonn og veiðst hafa um 70 þúsund tonn. Enn standa því eftir rúmlega 190 þúsund tonn. Þá standa vonir til að makrílveiðar geti hafist í sumarbyrjun en ekki hefur verið gefinn út upphafskvóti.

Þungir mjöl- og lýsismarkaðir

Aflahæstu skip á yfirstandandi ári í kolmunna eru Vilhelm Þorsteinsson EA með tæp 13 þúsund tonn og Beitir NK með tæp 10 þúsund tonn. Nánast ekkert af kolmunna fer í manneldisvinnslu en mikilvæg verðmæti verða til úr honum við mjöl- og lýsisvinnslu. Markaðir fyrir mjöl og lýsi frá íslenskum framleiðendum hafa þó verið þungir að undanförnu og verð með lægsta móti sem rekja má meðal annars til mikils framboðs frá Suður-Ameríku, að því er fram kom í viðtali við Hlyn Ársælsson, rekstrarstjóra uppsjávarfrystihúss Eskju í Fiskifréttum nýlega. Kolmunninn fer nánast allur til framleiðslu á mjöli og lýsi hérlendis. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands fyrir árið 2023 voru unnin 38 þúsund tonn af mjöli og lýsi úr kolmunna og tæp 2 þúsund tonn voru fryst. Útflutningsverðmætin voru í FOB-verðum 10,6 milljarðar króna. Í loðnuleysinu nú hefur kolmunni verið kærkomið hráefni fyrir tiltölulega verkefnalitlar mjölverksmiðjur austan- og sunnanlands. Það er þó langt að sækja kolmunnann vestur af Írlandi og á Hatton-Rockall svæðið um þetta leyti árs. Engu að síður hafa austfirskar útgerðir, sem eru sterkar í kolmunnakvóta, verið að sækja þangað góðan afla að undanförnu.

Miklar fjárfestingar lítið nýttar

Björn Brimar Hákonarson, framleiðslustjóri hjá Ísfélaginu hf., segir gríðarlegar fjárfestingar liggja í uppsjávarverksmiðjum og einkar bagalegt þegar hráefnisskortur, sem óneitanlega verður í kjölfar loðnubrests, setur verðmætasköpun svo miklar skorður. „Við erum með tvær línur í húsinu þannig að við getum unnið bolfisk þegar ekki er uppsjávarfiskur og haft þannig verkefni fyrir fólkið. En það eru vissulega miklu meiri tekjur af uppsjávarlínunni en bolfisklínunni. Það liggja svakalegar fjárfestingar í tækjabúnaði sem ráðist hefur verið í til vinnslu á uppsjávarfiski. Það þarf að borga af þessu öllu saman jafnvel þótt engin sé innkoman. Uppsjávarfyrirtækin þurfa því að vera í stakk búin að mæta þessum sveiflum,“ segir Björn Brimar.

Björn Brimar Hákonarson, framleiðslustjóri hjá Ísfélaginu.
Björn Brimar Hákonarson, framleiðslustjóri hjá Ísfélaginu.

Hann segir kolmunnakvóta Ísfélagsins lítinn, um 5% af heildinni, og ekki taki því að fara langt suður í höf eftir honum. Beðið verður með að taka hann þar til hann gengur inn í færeysku og íslensku lögsöguna. Ísfélagið hefur brugðist við hráefnisskorti með því að kaupa kolmunnafarma af erlendum skipum, nú síðast Pathway, sem Ísfélagið keypti reyndar af skoskri útgerð fyrir tæpu ári síðan og tekur inn í sinn rekstur í maímánuði næstkomandi.

Minni makrílkvóti en í fyrra

Alþjóða hafrannsóknarráðið ráðleggur 580 þúsund tonna heildarhámarksafla í makríl á þessu ári sem er umtalsverð minnkun frá því á árinu 2024 þegar ráðlagður hámarksafli var tæp 740 þúsund tonn. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands fyrir árið 2023 námu heildar útflutningsverðmæti makríls það ár 15,5 milljörðum króna. Í fyrra gerðu Noregur, Færeyjar og Bretland samning sín á milli um skiptingu 72% af ráðlögðum hámarksafla ICES til þriggja ára. Ísland stendur utan samkomulagsins og íslensk stjórnvöld úthlutuðu þá 111 þúsund tonnum af makríl til íslenskra skipa. Nam aflamarkið með flutningi milli ára og sérstakri úthlutun 130.740 tonnum. Af því veiddust tæp 87.600 tonn á árinu. Með sérstakri reglugerð var í fyrra heimilt að flytja 25% af heimildum fram á næsta ár í stað 15% áður. Upphafsstaðan á þessu ári er því kvóti upp á 30.400 tonn. Samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvegaráðuneytinu má búast við að gefið verði út aflamark í makríl til íslenskra skipa í maí eða júní næstkomandi, eins og jafnan er gert. Í samræmi við ráðleggingar ICES má búast við að það sem fellur í hlut íslenskra skipa verði umtalsvert minna en á árinu 2024. Allt frá árinu 2010 hafa veiðar strandríkjanna á makríl umfram ráðgjöf ICES numið 9-86% á ári og að meðaltali 40%. Engir fundir hafa verið milli strandríkjanna frá því í febrúar 2024. Samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvegaráðuneytinu verður næsti fundur líklega haldinn fyrri hluta júní mánaðar.

Byrja fyrr að leita makríls

„Í ljósi þess hve erfiðlega gekk að veiða makríl síðasta sumar ætlum við að byrja aðeins fyrr núna að eltast við hann. Við sendum öll skipin í þetta í byrjun júní og Pathway verður eitt þeirra skipa. Við verðum með ansi öflugan flota til þess að ná í makrílinn gefi hann sig á annað borð til. Vinnslan hér verður tilbúin að taka á móti makríl 23. júní,“ segir Björn Brimar. Hann segir þó mikla óvissu um komandi makrílvertíð eins og oft áður. Göngumynstrið hafi verið mjög breytilegt undanfarin ár. „Eina sem ég veit er að það er gert ráð fyrir minni kvóta en í fyrra.“