Smærri fiskvinnslur sem treysta á smábátaútgerð gætu þurft að segja upp starfsfólki nokkrum sinnum á ári eftir að lög sem tryggja þeim bætur í hráefnisskorti voru numin úr gildi. Sagt var frá þessu á RUV. Þar var rætt við Þóri Örn Jónsson fiskverkanda á Bakkafirði sem sagði afleitt að vísa þyrfti fólki á atvinnuleysisbætur. Niðurfelling styrksins var samþykkt í bandormi í fjárlögum sem samþykktur var á Alþingi. Styrkurinn hefur einkum nýst fiskvinnslum sem treysta aðallega á smábátaútgerðir um hráefni. Af veðurfarslegum ástæðum geta komið stopp í veiðar þeirra með tilheyrandi hráefnisskorti. Styrkurinn var hugsaður til þess að fiskvinnslan kæmist hjá uppsögnum starfsmönnum þegar svo stendur á.

Niðurfelling styrksins er gerður í sparnaðarskyni, að því er segir í greinargerð með bandorminum. Þar er einnig bent á að starfsmenn í fiskvinnslu eigi rétt á atvinnuleysisbótum. Uppsagnir í skemmri tíma geta leitt til þess að fiskverkendur missi frá sér gott starfsfólk með tilheyrandi röskun á starfseminni.