„Við komumst ekki á Suðvesturmið í þessari veiðiferð vegna veðurs og vorum því allan túrinn á Vestfjarðamiðum en fórum þó allt austur á Skagagrunn. Veður var vissulega rysjótt en maður verður að muna að í janúar er allra veðra von, á Íslandsmiðum a.m.k.”
Þetta segir Eyþór Atli Scott, skipstjóri á frystitogaranum Vigra RE, í frétt á
heimasíðu Brims
. Hann kom til hafnar fyrir helgina, með félögum sínum á Vigra, úr fyrstu veiðiferð ársins. Aflinn upp úr sjó var tæplega 700 tonn og aflaverðmætið áætlað um 315 til 320 milljónir króna. Segir Eyþór það vera ásættanlegt í ljósi aðstæðna.
„Aflinn var mjög blandaður. Mest var um ufsa en síðan vorum við með þorsk, gullkarfa, ýsu, grálúðu og djúpkarfa. Við hófum veiðar vestast í Víkurálnum. Þar var gullkarfi en annar afli kom í staðinn eftir því sem norðar og austar dró. Það var ýsa á Hornbankanum og alls staðar á grunnunum. Við fengum svo mest af ufsanum á Skagagrunni og þótt við höfum mest verið með ufsa af einstökum tegundum þá hefði ufsaaflinn alveg mátt vera meiri,” segir Eyþór í frétt Brims en hann upplýsir að auk þessa hafi verið skotist á Hampiðjutorgið nokkra dagsparta og þar hafi grálúðan og djúpkarfi fengist.
Sóttvarnir hafa verið fastur liður allra aðgerða um borð enda engin vanþörf á eins og dæmin sanna.
„Við höfum lagt okkur við að halda skipinu sóttfríu. Hraðprófum hefur miskunnarlaust verið beitt. Við þurftum að skilja einn skipverja eftir síðast vegna Covid-smits og hann var ekki tekinn um borð aftur fyrr en hann hafði jafnað sig. Ef einhver er kvefaður fer hann í hraðpróf. Enginn fer inn í matsalinn án hanska, kokkurinn skammtar á diskana og vélstjórarnir halda sig sér og matast í sínum herbergjum. Það gera yfirmennirnir líka,” segir Eyþór Atli.