Árleg stofnmæling Hafrannsóknastofnunarinnar á hörpudiski í Breiðafirði var gerð á Dröfn RE dagana 18.-23. október sl. Meginniðurstaða leiðangursins var sú að heildarvísitala hörpudisks mældist áfram í lágmarki eins og undanfarin ár eða aðeins um 14% af meðaltali áranna 1993-2000.
Aðrar niðurstöður voru þessar:
- Tíðni nýdauðra skelja, þ.e. tómar skeljar samhangandi á hjör, mælist minni en undanfarin ár sem bendir til þess að náttúruleg dauðsföll hafi áfram farið minnkandi.
- Vöxtur hefur verið góður frá því síðasta mæling var gerð haustið 2008 sem einnig bendir til þess að dauði skelja vegna frumdýrasýkingar sé í rénun.
- Allir árgangar frá árabilinu 2005-2008 eru lélegir en þó er 2008 árgangurinn þeirra skástur. Þannig er ekki gert ráð fyrir neinni umtalsverðri nýliðun í veiðistofninn á komandi árum. Gott klak og nýr álitlegur árgangur mun því byggjast á því að lítill en heilbrigður hrygningarstofn geti við hagstæð skilyrði gefið af sér góða nýliðun í náinni framtíð.
Leiðangursstjóri í hörpudisksleiðangrinum var Hrafnkell Eiríksson og skipstjóri Gunnar Jóhannsson.
Sjá nánar á vef Hafró, HÉR