„Skipið kom mjög vel út og menn voru mjög kátir með frumraunina,“ segir Friðrik Jónas Friðriksson, formaður Björgunarfélags Hornafjarðar, um nýja björgunarskipið Ingibjörgu sem kom til Hafnar á laugardag eftir siglingu frá Reykjavík.

Eins og fyrri björgunarskip í yfirstandandi þrettán skipa innkaupaseríu Slysavarnafélagsins Landsbjargar er skipið af gerðinni SAR 1700 og er smíðað hjá Kewatec í Finnlandi.
Varðandi það hvernig nýja skipið geri Björgunarfélagi Hornafjarðar betur kleift að sinna starfi sínu nefnir Friðrik fyrst að það nái tvöfalt meiri hraða en gamla skipið. „Nú erum við ekki lengur tvo og hálfan tíma á Djúpavog heldur klukkutíma. Þetta verður til þess að svæðið okkar mun stækka,“ segir hann.
Friðrik segir það ekki hafa verið tilviljun að Vestmannaeyingar hafi fengið fyrsta SAR-bátinn til sín. „Það var til þess að reyna þessi skip í sjólagi eins og á Íslandi og þeir eru náttúrulega með úthafsöldu allt í kringum eyjuna. Þetta er mjög gott sjóskip sem fer vel í sjó og það hefur komið mjög vel út hérna við Íslandsstrendur,“ segir Friðrik. Heimferðin hafi gengið vonum framar.
Höfðinglegar móttökur í Eyjum
„Við fengum frekar slæmt sjólag frá Reykjanesi og til Vestmannaeyja, 2,5 til 3 metra öldu og nokkurn vind. Ferðalagið frá Reykjavík til Eyja tók um sex tíma. Þar fengum við höfðinglegar móttökur og þökkum við Björgunarfélagi Vestmannaeyja fyrir okkur,“ segir Friðrik.
Eftir stutt matarstopp í Eyjum og olíuáfyllingu var brunað til Hafnar og tók sú sigling um sex og hálfa klukkustund. „Við fengum heldur skárra sjólag þar enda flúðum við upp að strönd og fórum frekar grunnt með suðurströndinni,“ segir Friðrik og bendir á að Hornfirðingar séu að stökkva yfir tvær kynslóðir í björgunarbátum.
„Við erum skipta út Arun Class-báti sem er að verða 47 ára. Við höfum reynt að halda honum í nútímanum með siglingatækjum og öðru en við erum ekki nærri á þeim stað sem nýja skipið er,“ segir Friðrik.
Færð framar í röðina
Sex manns sigldu Ingibjörgu heim og er óhætt að segja að skipið hafi verið í traustum höndum því þrír þeirra eru skipstjórnarmenntaðir auk þess sem tveir eru vélstjórar. Það var Friðrik sjálfur sem sat í skipstjórastólnum. Hann var vel kunnugur björgunarskipum af þessari gerð fyrir, enda búinn að sitja í nýsmíðanefnd Slysavarnafélagsins Landsbjargar frá því verkefnið hófst fyrir um átta árum.

Upphaflega áttu Hornfirðingar að sögn Friðriks að vera næstsíðastir til að fá nýtt skip en voru færðir framar í röðina vegna legu sinnar á landinu.
„Bilið milli Vestmannaeyja og Hornafjarðar er svo langt. Það hafa verið að koma upp óhöpp á þessu svæði og það eru einfaldlega svakalega langar vegalengdir þarna í milli,“ segir Friðrik.
Það er Björgunarbátasjóður Hornafjarðar sem tekur við nýja skipinu. Sjóðurinn fékk að sögn Friðriks tíu milljóna króna björgunarlaun fyrir tíu árum. Náðst hafi að ávaxta það fé ágætlega og það hafi nú verið notað til kaupanna. Síðan hafi fengist styrkir frá ýmsum sem tekið hafi verkefninu mjög vel en fjármögnunin hafi þó gengið upp og ofan. Ríkið kosti helming af kaupverði skipsins, sem sé um 340 milljónir króna. Hinum helmingunum skipti Slysavarnafélagið Landsbjörg og heimamenn í Björgunarsjóði Hornafjarðar jafnt á milli sín.
Gaman að sýna afraksturinn

„Við erum komnir eitthvað áleiðis en erum ekki komnir í mark,“ segir Friðrik um kostnaðinn. „Við erum búnir að vera að banka upp á hjá smábátaeigendum, líknarfélögum og fleirum og það er að skila sér hægt og bítandi. Við fáum þrjú til fjögur ár til þess að ná inn þessu fjármagni. Við erum á því að þegar skipið er komið heim og orðið áþreifanlegt og fólk áttar sig á þýðingu þess fyrir samfélagið munum við fá innspýtingu.“
Hornfirðingar sigldu skipi sínu úr höfn í Reykjavíkur síðastliðinn föstudag og voru komnir til hafnar inni á Hornafirði um hádegisbil á laugardag.
„Það var gríðarlega flott móttökuathöfn þegar við komum til Hafnar í sól og hlýju veðri,“ segir Friðrik. Það hafi verið ánægjulegt að koma með skipið heim. „Ekki síst vegna þess að ég hef starfað í nýsmíðanefndinni og það var gaman að geta sýnt afraksturinn.“