Að undanförnu hefur kolunnaveiði suður af Færeyjum verið með besta móti. Börkur NK kom með fullfermi, 3.250 tonn, til Neskaupstaðar þann 8. apríl og síðan hefur hver farmurinn af öðrum borist til verksmiðjanna í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Færeyska skipið Fagraberg landaði 2.700 tonnum á Seyðisfirði 10. apríl og sama dag landaði Barði NK 2.100 tonnum í Neskaupstað. Vilhelm Þorsteinsson EA landaði síðan 3.150 tonnum í Neskaupstað sl. laugardag.

Ekkert lát er á löndunum skipanna því Börkur NK er væntanlegur til Seyðisfjarðar í dag með fullfermi og Barði NK er að leggja af stað til Neskaupstaðar einnig með fullfermi, að því er fram kemur á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Að sögn Hjörvars Hjálmarssonar, skipstjóra á Berki, ganga veiðarnar mjög vel. „Við fengum í skipið í sex holum og við vorum um tvo og hálfan sólarhring á miðunum. Þetta voru á bilinu 400 til 640 tonn í holi. Veitt er á gráa svæðinu syðst í færeysku lögsögunni,” sagði Hjörvar.

Hjörvar Hjálmarson skipstjóri á Barða NK.
Hjörvar Hjálmarson skipstjóri á Barða NK.

Verksmiðjustjórarnir Hafþór Eiríksson í Neskaupstað og Eggert Ólafur Einarsson á Seyðisfirði, láta afar vel af hráefninu og segja að það sé bæði ferskt og gott.