Ástandið á báðum úthafskarfastofnunum er mjög slæmt að okkar mati. Mælingarnar sem gerðar hafa verið annað hvert ár á neðri stofninum sýna hratt fall og nú er svo komið að stærð hans er aðeins ríflega 20% af fyrstu mælingum sem fram fóru árin 1991 og 2001," segir Þorsteinn Sigurðsson sviðsstjóri uppsjávarlífríkis á Hafrannsóknastofnun í samtali við Fiskifréttir.
"Horfurnar eru eins svartar og þær geta orðið í ljósi þess hversu léleg nýliðunin virðist vera á uppvaxtarsvæði karfans á öllu Austur-Grænlandssvæðinu," bætir Þorsteinn við.
Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) lagði nú í fyrsta sinn til algjört veiðibann úr neðri stofninum á næsta ári og studdu Íslendingar það, en aðrar veiðiþjóðir voru á móti í ljósi þess að Rússar virða tillögur ICES að vettugi og veiða langt umfram ráðgjöf. Því varð niðurstaðan NEAFC (NA-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar) 7.500 tonna kvóti, þar af fá Íslendingar 2.300 tonn. Það stefnir hins vegar í 30 þúsund tonna heildarafla miðað við veiðiáform Rússa.