Uppsjávarskipin Venus NS og Víkingur AK eru komin til Reykjavíkur eftir að hafa legið í höfninni á Akranesi frá því að loðnuvertíð lauk. Ástæðan fyrir flutningi skipanna eru tökur á bandarísku hasarmyndinni The fast and the furious 8 en Akraneshöfn og Sementsverksmiðjan á Akranesi verða vettvangur viðburða í tökum á myndinni næstu dagana. Frá þessu er skýrt á vef HB Granda.

Að sögn Karls Sigurjónssonar, skipaeftirlitsmanns HB Granda á Akranesi, hefur hann verið í sambandi við forsvarsmenn True North, sem hefur veg og vanda af undirbúningi vegna töku myndarinnar hérlendis, frá því um miðjan desember sl.

- Áður en haft var samband við HB Granda vegna skipanna í höfninni var True North búið að setja sig í samband við bæjarstjórann á Akranesi vegna töku myndarinnar í byggingu Sementsverksmiðjunnar. Þá verða upptökur einnig á hafnarsvæðinu. Þær hefjast 14. apríl nk. og eiga að taka tvo daga. Síðan eru aðrir tveir dagar ætlaðir fyrir tökur í Hvalfirði, segir Karl en að hans sögn voru Venus og Víkingur einfaldlega of stór skip fyrir leikmyndina á hafnarsvæðinu og þurftu því að víkja.

- Fyrst var rætt um að Lundey NS, sem liggur í höfninni, færi einnig en sú ósk var síðan dregin til baka. Bjarni Ólafsson AK er einnig í höfninni en hann virðist ekki vera fyrir kvikmyndagerðarmönnunum, segir Karl Sigurjónsson.

Alls munu um 300 manns koma að upptöku Fast and the furious 8 á Akranesi og það má því búast við því að bæjarbragurinn breytist verulega eftir rúma viku.