Sjósvið rannsóknarnefndar samgönguslysa leiðir um þessar mundir alþjóðlega rannsókn vegna slysa í skemmtiferðaskipum.
Jón Pétursson, rannsóknarstjóri sjósviðsins, segir sviðið einnig takast sérstaklega á við öryggisverkefni sem tengjast svokölluðum RIB-bátum. Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við Jón í sérblaðið Fiskifrétta um öryggi til sjós. Hér má lesa meira um þau mál.
Áhyggjur af brotalömum í reglunum
„Við höfum haft til rannsóknar sjóatvik er tengjast skemmtiferðaskipum,“ segir Jón. „Við leiðum alþjóðlega rannsókn með rannsóknarstofnun á Bahamas þar sem við erum að skoða áskoranir á því sviði.“ Vonast sé til að þeirri rannsókn verði lokið fyrir vorið.
„Við höfum áhyggjur af að það séu brotalamir í regluverkinu varðandi hluti er tengjast aukinni umferð skemmtiferðaskipa og vaxandi umferð ýmiss konar annarra farþegaflutninga,“ segir Jón. „Þó að atvikin sem þar hafa komið upp séu kannski ekki mörg miðað við þann óhemju fjölda af farþegum sem er verið að fara með þá koma alltaf öðru hverju inn á borð til okkar slys í tengslum við svokallaða RIB-báta.“
Samfallsbrot á hrygg
Að sögn Jóns snúast alvarleg slys um borð í RIB-bátunum nánast undantekningarlaust um samfallsbrot á hrygg.
„Það geta verið mjög alvarleg slys og það er eitt slíkt mjög alvarlegt slys sem varð síðasta sumar. Í dag erum við í samstarfi við Breta sem eru að vinna sams konar rannsóknir og við erum að reyna að finna leiðir til að fækka þeim slysum,“ segir Jón.
Rannsóknarnefndin setti fram ýmsar ábendingar í kjölfar þess að slys af þessu tagi voru mikið til rannsóknar fyrir þremur til fjórum árum.
Áhættusvæði í RIB-bátum
„En það er alveg klárt að það þarf að ganga lengra. Bretar fóru þá leið til dæmis að skilgreina fremsta svæðið í þessum bátum sem sérstakt áhættusvæði. Fólk þarf að vera meðvitað um að eftir því sem þú ert framar í svona bát á mikilli ferð þá verður höggið meira ef þú skellur niður,“ segir Jón og undirstrikar að öllum sem hafi vitneskju um sjóslys beri að tilkynna um þau.
„Við vitum ekki hvort öll þessi slys eru tilkynnt til okkar. Það hefur komið fyrir að manneskja hefur slasast og svo verið farin úr landi,“ segir Jón og minnir á að munurinn á farþegaflutningum og sjómönnum sé sá að farþegar séu yfirleitt ekki sjómenn. „Það kemur fyrir að það gleymist. En ég vil taka fram að við eigum gott samtal við þá sem eru að gera út þessa báta.“