Landssamband smábátasjómanna samþykkti að hafna kvótasetningu grásleppu á framhaldsaðalfundi sínum síðasta föstudag. Samþykkir voru 27, andvígir voru 16 og þrír sátu hjá.

Jafnframt samþykkti fundurinn að vísa til stjórnar félagsins hugmyndum um það hvernig bæta megi stjórn grásleppuveiða án þess að kvótasetja þær.

Hart deilt

Hart hefur verið deilt um kvótasetningu grásleppu meðal félagsmanna undanfarið. Undirskriftasöfnun meðal grásleppuveiðimanna sýndi yfirgnæfandi stuðning þeirra við kvótasetningu, en einungis hluti félagsmanna hafa stundað grásleppuveiðar.

Alls hafa félagar í Landssambandi smábátaeigenda verið um 800 en ríflega 200 bátar hafa verið á grásleppu. Á fundinum kom einnig fram að af þeim ríflega 600 bátum sem voru á strandveiðum undanfarin fjögur ár hafi aðeins um 70 jafnframt verið á grásleppu.

Þriðji hluti fundar

„Umræða um tillöguna var mjög löng og hart tekist á,“ segir á vef samtakanna. „Segja má að flest þau sjónarmið sem tengdust þessu umdeilda málefni hafi komið fram. Innlegg frá fundarmönnum voru málefnaleg þar sem aðilar héldu sig við efnið þar til greidd voru atkvæði um tillöguna.“

Ekki tókst að ljúka dagskrá fundarins og verður seinni framhaldsaðalfundur því haldinn nú í lok vikunnar, föstudaginn 18. desember. Sá fundur verður eins og tveir fyrri hlutar aðalfundarins fjarfundur. Á lokafundinum verður kosið í stjórn félagsins og nýr formaður kosinn, auk þess sem nokkrar tillögur eru enn óafgreiddar.