Það er jólastemning í vinnsluhúsi Loðnuvinnslunnar í Fáskrúðsfirði en þessa dagana er verið að hausa, flaka og bita niður síld, salta hana og marinera fyrir Skandinava og Kanadamenn. Hoffellið var að koma úr sex vikna slipp í Færeyjum og hélt þaðan beint á miðin fyrir vestan land í sinn fyrsta síldartúr. Þar náðu menn í 800 tonn og sigldu rakleiðis með aflann austur þar sem hann er saltaður.

Hoffellið var að landa í Fáskrúðsfirði þegar náðist í Sigurð Bjarnason skipstjóra. Hann segir mikla siglingu að baki. Haldið var frá Færeyjum í bítið á sunnudag og var skipið komið á síldarmiðin fyrir vestan land seint um kvöldið.

„Það var eitthvað af síld þarna en leiðindaveður allan tímann. Við lentum í tveimur brælum og í smá brasi með trollið. Menn voru að fá fínt þarna engu að síður. Við tókum fjögur eða fimm hol til að ná þessum 800 tonnum. Þetta er fremur smá síld, 270-280 grömm. Hún er alltaf smærri en þessi norsk-íslenska. En það ber ekkert á sýkingu í þessari síld. Þetta ætti að vera úrvals hráefni til söltunar,“ segir Sigurður.

Upplyfting í Glasgow

Framundan er pása hjá áhöfninni sem er á leið í árlega upplyftingu og haldið verður til Glasgow í dag. Svo verður farið á ný á síldveiðar næstkomandi þriðjudag. Sex vikna stopp var í Færeyjum þar sem skipt var um niðurleggjara og nótakassinn stækkaður. Þá voru spilmótorar á aðalspili teknir upp, glussalagnir lagðar fyrir nýtt hjálparspil á framdekki og ýmis smærri verk unnin. Þá var sett upp smá yfirbygging stjórnborðsmegin framan við brú til að bæta vinnuaðstöðuna. Sigurður segir enn eftir að gera eitt og annað til að bæta skipið enn frekar.

Sigurður Bjarnason, skipstjóri á Hoffelli SU.
Sigurður Bjarnason, skipstjóri á Hoffelli SU.
© Þorgeir Baldursson (.)

Loðnuvinnslan tók á móti Hoffellinu í júní síðastliðnum en það var keypt frá Danmörku þar sem það hét As­bjørn HG-265. Nýja Hoffellið er 14 ára gamalt og 9 árum yngra en fyrra skip Loðnuvinnslunnar með sama nafni og 53% stærra.