Vilhjálmur Árnason og fleiri alþingismenn Sjálfstæðisflokks vinna nú að undirbúningi þings­álykt­un­ar­til­lögu um rannsókn á áhrifum hnúfubaks á loðnustofninn. Vilhjálmur segir nauðsynlegt að fá skýra mynd af stöðunni í ljósi fjölgunar hnúfubaks og endurtekins loðnubrests. Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, segir umhverfisástæður eins og hlýnandi sjó hafa breytt göngumynstri loðnunnar og ekki sé eingöngu við hnúfubaka að sakast í þessum efnum. 

„Þetta hefur lengi verið í umræðunni,“ segir Vilhjálmur Árnason, einn þingmanna úr röðum Sjálfstæðisflokks sem hyggjast leggja fram þings­álykt­un­ar­til­lögu um að hafnar verði rannsóknir á afráni hnúfubaks á loðnustofninum. Tillagan verði mögulega lögð fram fyrir vorið.

Vilhjálmur segir fljótlega að vænta niðurstöðu úr hvalatalningu Hafrannsóknastofnunar. Þá komi í ljós hversu mikið hnúfubakur hafi fjölgað sér frá því hann var friðaður í rétt fyrir 1960.

Veiðar besta leiðin til rannsókna

„Skipstjórarnir segja að þeir hafi aldrei séð svona mikið af hnúfubak áður þar sem þeir eru að leita að loðnunni og það er allt sem bendir til þess að hnúfubakurinn hafi fjölgað sér gríðarlega. Vísindamenn hafa verið að taka húðsýni og slíkt til að meta fæðuna og það hefur ekki gengið nógu vel,“ segir Vilhjálmur. Þetta hafi ekki verið nóg til að átta sig á hversu mikið afránið sé. Finna þurfi aðrar leiðir og margt bendi til þess að veiðar sé besta leiðin til rannsókna á því.

Spurður hvernig þessar vísindaveiðar færu fram segir Vilhjálmur skipulagningu þess mundu verða í höndum sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar. Mögulega væri um  að ræða nokkra tugi dýra.

„Þetta væru örugglega nokkur dýr á nokkrum stöðum á mismunandi tíma. Skoðað yrði á hvaða tímabili loðnugöngunnar eru þeir að éta og hversu mikið og í hvaða ástand loðnan er,“ segir hann. Þar með fengjust vísindaleg gögn til að byggja veiðistjórnunina á. og  mögulega væri hægt að auka veiða í vísindaskyni jafnt og þétt  og meta áhrifin.

„Aðalatriðið er að við þurfum að afla sem mestra upplýsinga um auðlindina sem er að gefa okkur svo mikið,“ segir Vilhjálmur. Þetta snúist ekki aðeins um loðnuna heldur líka annað sem hvalirnir éti. „Eru þeir að taka æti frá öðrum mikilvægum fiskistofnum og eru þeir að éta einhverja aðra fiskistofna. Er skortur á fæðu fyrir hnúfubakinn? Eru þeir orðnir svo margir að þeir sé farnir að aféta hvorn annan?“

Breytt göngumynstur loðnu

Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, segir að ekki megi líta svo einhliða á málið að kenna hvölum einum um hrun í loðnuveiðum. „Samfara því að útbreiðsla loðnu breyttist um aldamótin er framleiðslan stofnsins miklu minni. Það má ekki líta þannig á að eingöngu sé við hnúfubakinn að sakast. Það eru umhverfisástæður sem hafa klárlega haft veruleg áhrif í þá veru að breyta útbreiðslumynstrinu. Þar af leiðandi hefur mun minna verið framleitt af loðnu í kerfinu. Það er ekki sjálfgefið að það sé hnúfubaknum einum að kenna. Það hefur verið hlýnandi sjór í kringum landið og loðnan leitað vestar og norðar. Við þurfum að reyna að taka tilfinningarök út úr jöfnunni," segir Þorsteinn.