Björgunarsveitir frá frá Drangnesi og Hólmavík losuðu i gær hnúfubak sem hafði fest sig í veiðarfærum í Steingrímsfirði.
Tilkynning um hvalinn barst eftir hádegi til Matvælastofnunar og var hann þá talinn dauður. Myndir úr dróna samtakanna Whale wise staðfestu hinsvegar að dýrið væri lifandi en samtökin hafa verið við hvalarannsóknir á svæðinu. Var þá ráðist í björgunaraðgerðir að fengnu samþykki matvælaráðherra sem fer með málefni sjávarspendýra. Viðbragðsteymið „Hvalir í neyð“ var kallað kallað saman en teymið samanstendur af sérfræðingum og fulltrúum frá Matvælastofnun, Landhelgisgæslunni, almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, Hafrannsóknastofnun, Háskóla Íslands, Umhverfisstofnun og Slysavarnafélaginu Landsbjörg.
Hnúfubakurinn Bird
Í samstarfi við Háskóla Íslands rannsaka samtökin umfangið á sjáanlegum ummerkjum og örum á hvölum sem flækjast í veiðarfærum. Umræddur hnúfubakur hefur verið nefndur „Bird“ í rannsóknum samtakanna. Bird er tæplega níu metra langur og hefur sést á svæðinu síðan um miðjan ágúst sl. en hefur sést á Skjálfandaflóa fyrri ár. Bird er talinn vera unghveli en kyn er enn óljóst.
Eftir að hvalurinn hafði losnað við veiðarfærin kvaddi hann með kröftugu sporðaslagi og sást stefna til hafs og út á Húnaflóa.
Breyting á lögum um velferð dýra
„Það er vissulega fagnaðarefni að það tókst að bjarga dýrinu úr þessari prísund“ sagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra. „Ég hef lagt mikla áherslu á dýravelferð í mínum störfum sem matvælaráðherra og í ráðuneytinu hefur aukin áhersla verið lögð á þann málaflokk, meðal annars er framundan stefnumótunarvinna á vegum skrifstofu sjálfbærni og og dýravelferðar“
Á þingmálaskrá fyrir komandi þingvetur hefur matvælaráðherra meðal annars lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um velferð dýra auk tillögu til þingsályktunar um stefnumótun á sviði dýravelferðar. Tímabært þykir að taka málaflokkinn til gagngerrar skoðunar í ljósi meðal annars aukinnar vitundar og þekkingar á velferð dýra og samfélagslegra breytinga.