Á 400 metra dýpi, um það bil 80 sjómílur vestur af Snæfellsnesi liggur skipskrokkur á hafsbotninum sem er 155 metra langur og 20 metra breiður. Staðsetning flaksins er á 64° 57’N, 27° 19’V og það sem er talið vera stefni skipsins rís 13 metra upp frá hafsbotninum og virðist snúa í vestur. Skipið liggur á ystu brún plógfars eftir ísaldarjökul sem er 330 metra breitt og 12 metra djúpt. Skutur skipsins virðist vera grafinn undir set og er skipið því líklega lengra en gögnin sýna. Umhverfis flakið má sjá hóla og hæðir sem gætu verið leifar af skipinu sjálfu. Kristján H. Kristinsson, skipstjóri á rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni, segir að íslenskir togarar hafi uppgötvað flakið á árunum 1991/1992. Svæðið er þekkt karfaslóð og í gegnum tíðina hafa togarar á karfaveiðum fest veiðarfæri sín í flakinu. Togari frá Akureyri fékk meðal annars upp keðju frá flakinu í veiðarfæri. Líklegast þykir að um kaupskipið HMS Rajputana sé að ræða en talið var að það lægi á 64° 50’N, 27° 25’V. Staðsetningin var áætluð út frá stefnu og hraða skipsins þegar því var grandað en ekki var búið að staðfesta þá staðsetningu.
Í rannsóknaleiðangri Hafrannsóknastofnunar sem farinn var til að kortleggja hafsbotninn í kringum Ísland var siglt yfir staðinn sem talið var að Rajputana lægi en þar voru engin ummerki um skipsflak. Því má með nokkurri vissu áætla að þessi staðsetning, 64° 57’N, 27° 19’V, sé hinsti hvílustaður vopnaða kaupskipsins HMS Rajputana og þeirra áhafnarmeðlima sem ekki komust frá borði. Gunnar Birgisson kafari hafði samband við leiðangursfólk og taldi mjög líklegt að þarna væri búið að staðsetja flakið af HMS Rajputana. Þess má til gamans geta að systurskip HMS Rajputana, HMS Rawalpindi, er trúlega að finna á sömu breiddargráðu austur af Íslandi, en það skip er með stærri skipum sem hafa farist við Ísland. Breska flotamálastjórnin breytti því í vopnað kaupskip og tók Rawalpindi í þjónustu 26. ágúst 1939.
Af heimasíðu Hafrannsóknastofnunar