Stolt Sea Farm, Sæbýli og Hið Norðlenska Styrjufjelag hafa í samstarfi við Auðlindagarð HS Orku staðið að undirbúningi við að koma upp hlýsjávareldisgarði á eldissvæði Stolt Sea Farm á Reykjanesi. Þar eru áform um að vera einnig með aðstöðu til þess að geta sýnt gestum og gangandi einstakar aðstæður til hlýsjávareldis.

Senegalflúra, sæeyru og styrja

Í hlýsjávareldisgarðinum verða ræktaðar tegundir eins og senegalflúra, sæeyru og styrja. Hið Norðlenska Styrjufjelag stundar eldi á styrju til kavíarframleiðslu á Ólafsfirði en til stendur að sett verði upp starfsstöð einnig í hlýsjávargarðinum. Þar er fyrir Stolt Sea Farm, sem sérhæfir sig í eldi senegalflúru og hefur gert í rúman áratug á Reykjanesi. Fyrsta slátrun á senegalflúru fór þar fram í janúar 2014. Sæbýli, sem sér hæfir sig í eldi á sæeyrum, hefur haft alla sína starfsemi í Grindavík þar til nýlega að áframeldisstöð tók til starfa á lóð Stolt Sea Farm. Sigurður Pétursson, stjórnarformaður Sæbýlis, segist lengi hafa verið þeirrar skoðunar að opna þyrfti aðgang almennings að eldisstarfsemi og kynna starfsemina með þeim hætti. Um yrði að ræða skipulagðar heimsóknir hópa inn á svæðið og þeim veitt kynning á þeirri starfsemi sem þar fer fram. Það eldi sem nú fer fram á Reykjanesi nýtir að hluta heitan hraunsíaðan sjó frá grænni raforku í framleiðslu jarðvarmavirkjunar HS Orku og blöndun við kaldan borholusjó að þeim kjörhita sem hentar hverri eldistegund.