Fiskistofa greinir frá því að hún hafi póstlagt til kynningar til viðkomandi útgerða um bráðabirgðaúthlutun í hlýra. Á vef Fiskistofu er birtur listi yfir hlutdeild og aflamark einstakra skipa sem úthlutað hefur verið aflamarki til bráðabirgða.

Fiskistofa birtir listann því með fyrirvara um breytingar sem kynnu að eiga sér stað. Frestur til að gera athugasemdir rennur út 1. október næstkomandi. Útgerðir geta komið á framfæri við Fiskistofu athugasemdum varðandi aflatölur sem liggja til grundvallar aflahlutdeild. Þá er einnig hægt að óska eftir að tillit sé tekið til tilfærslu á viðmiðum aflareynslu.

Nýja reglugerðin er nr. 776/2018 og felur það í sér að hlýri er kvótasettur. Leyfilegur heildarafli fiskveiðiárið 2018/2019 í hlýra er 1.001 tonn.

Í 2. gr. reglugerðarinnar segir svo um úthlutun aflahlutdeilda í hlýra:

„Fyrir upphaf fiskveiðiársins 2018/2019, skal fiskiskipum, sem aflareynslu hafa í hlýra innan íslenskrar fiskveiðilögsögu, á fiskveiðitímabilinu 16. ágúst 2015 til 15. ágúst 2018, úthlutað aflahlutdeild í hlýra á grundvelli veiðireynslu þeirra, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga um stjórn fiskveiða. Fyrirmæli 3. mgr. 9. gr. laganna gilda við úthlutunina.“