Í nýafstöðnu vorralli Hafrannsóknastofnunar voru merktir á rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni 67 hlýrar. Þar af voru 20 merktir með rafeinda- og slöngumerki en 47 voru einungis merktir með slöngumerki. Hlýrarnir sem voru merktir veiddust aðallega í kantinum úti af Vestfjörðum. Þetta kemur fram í grein sem Ásgeir Gunnarsson fiskifræðingur skrifar í nýjustu Fiskifréttir.
Hlýri hefur ekki áður verið merktur með rafeindamerki svo vitað sé. Vonir standa til að geta með þessum merkingum athugað dægursveiflur í fari hlýra og athugað hvort hann fari almennt á dýpra vatn á haustin til að hrygna eins og steinbítur, en þessar tegundir eru náskyldar.
Í sama leiðangri voru einnig merktir 150 steinbítar úti af Horni á Vestfjörðum. Þar af voru 40 steinbítar merktir bæði með rafeinda- og slöngumerki en frá árinu 2012 til dagsins í dag hefur Hafrannsóknastofnun merkt 756 steinbíta á 5 stöðum við Ísland, af þeim hafa 343 steinbítar verið merktir bæði með rafeinda- og slöngumerkjum og 413 einungis með slöngumerkjum.
Hvatning til sjómanna og fiskverkafólks
Hafrannsóknastofnun hvetur sjómenn og fiskverkafólk til að veita því eftirtekt hvort þeir steinbítar eða hlýrar sem þau meðhöndla séu merktir. Best er ef sá eða sú sem finnur merktan steinbít eða hlýra geti komið honum á nærliggjandi útibú Hafrannsóknastofnunarinnar eða fiskmarkað og er þá nauðsynlegt að það fylgi með upplýsingar um það hvar fiskurinn veiddist (GPS hnit, þ.e. lengd og breidd), dýpi á veiðistaðnum, hvenær hann veiddist (dagsetning) og nafnið á bátnum eða skipinu sem steinbíturinn var veiddur á. Ef það er af einhverjum ástæðum ekki mögulegt að koma fisknum til útibús eða fiskmarkaðar er hægt að senda merkin til Hafrannsóknastofnunar ásamt áðurnefndum upplýsingum. Þurfa þá einnig að fylgja upplýsingar um lengd og kyn steinbítsins eða hlýrans. Til að hægt sé að meta aldur fiskanna er nauðsynlegt að fá kvarnir úr þeim, en við kvörnun á steinbít eða hlýra er skorið beint í hausinn u.þ.b. þumlung aftan við augun, þar liggja kvarnirnar í hólfum í hausnum. Kvarnirnar sem á að taka eru tvær, þær eru smáar eða um 5 mm á lengd og eru hvítar á lit. Nafn og heimilisfang finnandans þarf að fylgja með sendingunni, en verðlaun eru veitt fyrir skil á merkjum, 2000 krónur fyrir slöngumerki og 10.000 krónur fyrir rafeindamerki.