Ævintýraleg aukning hefur orðið útflutningi ferskra fiskafurða frá Íslandi á liðnum árum. Þorskur er fyrirferðarmesta tegundin í þessari framleiðslu en gríðarleg aukning hefur orðið á útflutningi ferskra þorskflaka og bita á síðastliðnum 15 árum.
Á milli áranna 1999 og 2014 óx útflutningurinn úr 4.940 tonnum í 23.245 tonn og útflutningsverðmætin úr 5,8 milljörðum króna í 28 milljarða króna.
Fersk flök og bitar verða sífellt stærri hluti verðmætasköpunar úr þorski, en á sama tímabili óx hlutur þeirra úr 6% í 31% af útflutningsverðmætum allra þorskafurða. Það samsvarar fimmföldun á 15 árum. Það hlutfall sem ferskar afurðir skapa af útflutningsverðmæti annarra tegunda hefur einnig aukist en árið 2014 voru 33% útflutningsverðmæta ýsu af ferskum afurðum, 13% karfa, 43% steinbíts og 10% ufsa.
Þetta kemur fram í nýrri greiningu Sjávarklasans. Sjá nánar HÉR