Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður atvinnuveganefndar Alþingis, vill að í stað þess að útgerðir borgi veiðigjöld verði hluti kvótans tekinn af þeim og hann boðinn upp á opnum markaði.

Jón viðraði þessar skoðanir sínar í viðtali á sjónvarpsstöðinni Hringbraut. Jón vill að gerðar verði veigamiklar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða.

Jón segir í viðtalinu að með því að bjóða hluta kvótans á opnum markaði opnist leiðir fyrir nýliða eða þá sem hafa of litlar veiðiheimildir. Hann segir að jafnframt verði að girða fyrir það að stærri útgerðirnar nái öllum pottinum til sín.

Gangi þetta eftir sér Jón fyrir sér að tugir þúsunda tonna verði á markaði. Hann hefur rætt þetta mál við Sigurð Inga Jóhannsson forsætisráðherra.

Hugmyndir Jóns eru í andstöðu við Samstök fyrirtækja í sjávarútvegi. Jens Garðar Helgason formaður samtakanna sagði t.a.m. í viðtali við Viðskiptablaðið í byrjun árs að þjóðarbúið muni tapa ætli menn að bjóða aflaheimildir á hverju ári. Það muni koma í veg fyrir langtímaáætlanir og langtímafjárfestingar í greininni.