Björn Ævarr Steinarsson fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun tekur ekki undir þá skoðun Sigurðar Viggóssonar framkvæmdastjóra Odda á Patreksfirði í Fiskifréttum nýlega að hlutfall stórþorsks í hafinu sé orðið óeðlilega hátt sem leiði til þess að stærsti og elsti fiskurinn drepist úr elli vegna þess að sjómenn forðist að veiða hann því millistóri fiskurinn sé hagkvæmari í vinnslu og sölu.

Björn Ævarr svarar Sigurði í nýjustu Fiskifréttum og bendir á að þorskur geti orðið 25 ára gamall. „Auðvitað drepst eitthvað af stórfiskinum úr elli á endanum ef hann er ekki veiddur. En það þarf að taka tillit til fleiri þátta eins og samsetningar og veiðihæfni flotans á hverjum tíma og svo framlagi stærri fisksins til hrygningarinnar sem er  mjög mikilvægt. Það eru engar vísbendingar um að stóri fiskurinn sé að drepast í hrönnum engum til gagns eins og nú standa sakir,“ segir Björn Ævarr.

Hann bendir á að á fyrri hluta síðustu aldar hafi hlutfall tíu ára þorsks og eldri í stofninum verið um 50% en núna sé það 10%. „Hlutfallið nú er ekki það hátt að ég telji ástæðu til að grípa til einhverra aðgerða.“

Björn Ævarr tekur hins vegar undir þá skoðun Sigurðar að skynsamlegt sé að skoða hámarksafrakstur þorsstofnsins út frá markaðslegum forsendum að því gefnu að sjálfbærni hans sé ekki fórnað.

Sjá nánar í Fiskifréttum