Breska dagblaðið The Guardian hefur flett ofan af írskum útgerðarfélögum sem með skipulögðum hætti hafa ráðið menn frá Afríku og Asíu ólöglega um borð í írsk fiskiskip og hlunnfarið þá í launum. Þessu er jafnvel líkt við nútíma þrælahald. Sjá grein á vef The Guardian HÉR.
Rannsókn blaðsins beindist aðallega að rækjutogurum og hvítfisktogurum. Í viðtölum við erlenda sjómenn kom fram að þeir fá helmingi lægri laun en lágmarkslaun eru samkvæmt írskum kjarasamningum. Þeir þurfa auk þess að vinna næstum dag og nótt og fá lítinn svefn og enga hvíldardaga. Þegar skipin koma í höfn mega þeir ekki fara í land án sérstaks leyfis skipstjóra.
Erlendu sjómönnunum er smyglað til landsins í gegnum flugvelli í London og Belfast og ráðnir ólöglega um borð í fiskiskipin. Talsmaður sjómanna segir að þetta hafi viðgengist um áraraðir. Stjórnvöld viti af þessu en aðhafist ekkert. Hann fullyrðir að um 90% fiskiskipa á Írlandi komi hér við sögu.