Höskuldur Björnsson sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun flytur á fimmtudaginn erindi í málstofu Hafrannsóknastofnunar (kl. 12:30) sem nefnist Framþróun í fiskmerkingum. Þar mun hann m.a. fjalla um hljóðbylgjumerki sem rutt hafa sér til rúms í fiskmerkingum.

Í frétt á vef Hafrannsóknastofnunar um málið segir:

Undanfarna áratugi hefur orðið mikil framþróun í fiskmerkjum.  Í dag er hægt að fá  fiskmerki sem geta mælt dýpi, hitastig, seltu, birtu , stefnu, halla og e.t.v. fleiri stærðir.  Út frá mælingum má síðan oft áætla staðsetningu fisksins, t.d. með tímasetningu sjávarfalla hjá botnlægum tegundum. Helsti gallinn við hefðbundinn mælimerki er að þurfa að endurheimta fiskinn, krafa sem útilokar merkingar á fiski með mjög lágt veiðiálag eins og karfa og smáþorski.

Hljóðbylgjumerki

Til að komast framhjá þessu vandamáli hafa svokölluð hljóðbylgjumerki verið þróuð.  Það eru merki sem senda frá sér hljóðbylgjur með upplýsingum um númer merkisins.  Til að nema þessar hljóðbylgjur þarf síðan net af hljóðbylgjunemum sem eru festir við baujur.  Við Ísland hafa tilraunir með hljóðbylgjumerki verið gerðar með steinbít og ýsu í Hvalfirði og hrygningarþorsk í Kollafirði.

Útbreiðsla nytjafiska við Ísland

Á árlegri ráðstefnu ICES 2013 var "Framþróun í greiningu á útbreiðslu tegunda" eitt þemað. Flestir fyrirlestrarnir tengdir þessu þema voru einmitt um tilraunir með hljóðbylgjumerki. Í erindinu verður farið yfir hluta af því sem kom fram á ICES ráðstefnunni.  Í lokin verður skoðað lauslega mögulegt umfang hljóðbylgjumerkingar sem gæti gefið mynd af útbreiðslu nytjafiska á íslenska landgrunninu.“