Meira var landað af fiski á Hjaltlandi árið 2015 en á öllu Englandi, Wales og Norður-Írlandi samanlagt, að því er fram kemur í frétt á vef BBC.
Í fréttinni er vitnað í opinberar hagtölur sem nýlega voru gefnar út. Þar kemur fram að á Hjaltlandi er önnur stærsta löndunarhöfn Bretlands næst á eftir Peterhead í Skotlandi.
Um 72 þúsund tonnum af fiski og skelfiski var landað á Hjaltlandi að verðmæti 61 milljón punda (um 8,4 milljarðar ISK). Það er um 16% af allri löndun fisks á Bretlandi.
Þá er áætlað að skip Evrópusambandsríkja að breskum skipum meðtöldum hafi veitt við Hjaltland um 450 þúsund tonn af fiski og skelfiski á síðasta ári að verðmæti 300 milljónir punda (um 41,5 milljarður ISK).