Hjálmar Sigurjónsson, fráfarandi skipstjóri á Ljósafelli SU 70, er hættur til sjós, aðeins 55 ára gamall.
Það eru afleiðingar alvarlegs vélsleðaslyss sem Hjálmar varð fyrir í mars 2022 sem neyða hann úr brúnni og í land. Þetta kemur fram á vef Loðnuvinnslunnar þar sem rætt er við Hjálmar um slysið, eftirmála þess og það sem framtíðin ber í skauti sér.
Leggurinn hékk á húðinni
„Hjálmar Sigurjónsson fráfarandi skipstjóri á Ljósafelli SU 70 er einn af þeim sem mætti óvæntum örlögum í sínu lífi. Fallegan vetrardag í mars mánuði árið 2022 var hann, sem oftar, á snjósleða og ók um fjallasali Fáskrúðsfjarðar. Til þess að gera langa sögu stutta, endaði förin með þeim hætti að hann slasaðist alvarlega á fæti. Svo alvarlega að bókstaflega hékk leggurinn fyrir neðan hné við lærið á um það bil fimm sentímetra húðlagi. Hjálmar gat sjálfur hringt eftir aðstoð og björgunarsveitafólk mætti á staðinn og hlúði að honum þangað til þyrla mætti og flutti hann á sjúkrahús,“ segir í frásögninni á vef Loðnuvinnslunnar.
Svæfður þrettán sinnum
Fætinum hafi verið naumlega bjargað en erfiðleikum Hjálmars hafi aldeilis ekki verið lokið.
„Frá slysinu hefur hann verið svæfður þrettán sinnum á meðan læknar unnu hörðum höndum að því að bjarga og bæta. Það hafa verið flutt bein og vöðvar frá öðrum stöðum á líkamanum til þess að byggja upp legginn og nú er svo komið að fóturinn er nothæfur. Hann er svolítið skrítin á að líta, en nothæfur,“ segir áfram á lvf.is. Sjálfur segi Hjálmar kraftaverk að hann skyldi halda fætinum. Það hafi staðið tæpt um tíma.
Aftur til sjós en veltingurinn of erfiður
„Eftir þessa þrekraun alla var Hjálmar tilbúinn til þess að hverfa aftur til starfa sem skipstjóri á Ljósafelli og í júlí síðastliðinn fór hann í fyrsta túrinn eftir slys. Fljótlega kom þó í ljós að starfið var erfitt fyrir líkamann sem gengið hafði í gegn um þá erfiðleika sem Hjálmar hefur óneitanlega staðið frammi fyrir síðustu tvö ár,“ heldur frásögnin áfram.
„Það var veltingurinn sem var svo erfiður fyrir bak og háls og fóturinn viðkvæmur og kraftlítill og þolir illa að ég stígi skakkt niður,“ svarar Hjálmar aðspurður um hvaða það hefði verið sem stóð honum fyrir þrifum á sjónum.
Vill ekki ganga fyrir verkjatöflum
Hjálmar hafi því ákveðið að segja starfi sínu lausu og segja skilið við sjómennskuna. „Það var alls ekki létt ákvörðun,“ segir hann en tekur fram að hann hefði svo sem getað hangið lengur ef hann hefði tekið ómælt magn af verkjatöflum, en það hafi honum ekki þótti góður kostur.
Hjálmar er aðeins 55 ára gamall og er alls ekki af baki dottinn. „Ég finn mér eitthvað annað að gera,“ segir hann. Það sé hægt að starfa við margt sem sé laust við velting og streitu skipstjórnandans.
„Þakklæti fyrir þá staðreynd að aldrei hefur orðið alvarlegt slys um borð og allir þessir frábæru strákar sem ég hef unnið með í gegn um tíðina,“ svarar Hjálmar spurður um það sem sé efst í huga þegar hann horfir til baka á ferilinn til sjós.
Smákökur og gluggaþvottur
Næstu vikurnar ætlar Hjálmar meðal annars að læra smákökubakstur af Dagnýju Hrund Örnólfsdóttur, eiginkonu sinni, og sömuleiðis áætlar hún að taka hann námskeið í gluggaþvotti.
„Svo Hjálmar og Dagný verða ekki verkefnalaus fram að jólum en þeirra ætla þau að njóta með börnum, barnabörnum og tengdabörnum. Og þegar sólin fer að verma reit á nýju ári, mun Hjálmar væntanlega finna sér nýjan starfsvettvang, eitthvað sem hæfir þessum hógværa og glaðlega manni,“ segir á vef Loðnuvinnslunnar sem í lokin þakkar Hjálmari fyrir hans góðu og óeigingjörnu störf í þau 29 ár sem hann var á Ljósafelli og óskar honum alls hins besta í lífi og leik.