Breytingar í hafi vegna hlýnunar loftslags hafa margvísleg áhrif á lífríkið í hafinu, þar á meðal mikilvæga nytjastofna sem Íslendingar eiga mikið undir. Augu vísindamanna hafa óneitanlega beinst að þessu og síðastliðið vor birti Hafrannsóknastofnun skýrslu um „stöðu umhverfis og vistkerfa í hafinu við Ísland og horfur næstu áratuga.“

Þar segir meðal annars að hlýindaskeiðum í hafinu við Ísland fylgi „bæði neikvæðar og jákvæðar afleiðingar á afrakstur nytjastofna. Við slíkar aðstæður má gera ráð fyrir minni framleiðni lykilfæðutegunda í vistkerfinu, loðnu og sílis, með neikvæðum afleiðingum á aðrar tegundir. Magn suðrænni tegunda, svo sem makríls, kann að aukast og útbreiðslusvæði sumra botnsjávarstofna að stækka. Þá eru ákveðnar líkur á kólnun sjávar við landið á næstu árum, einkum norðan til, sem má búast við að hafi almennt neikvæðar afleiðingar á afrakstur nytjastofna.“

Þá birti Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna fyrir stuttu uppfærða skýrslu sína um loftslagsbreytingar, mikinn doðrant þar sem teknar eru saman allar nýjustu upplýsingar um stöðu vísindalegrar þekkingar á því sem er að gerast í loftslagskerfi jarðar og þar á meðal áhrifum þeirra á heimshöfin.

Fiskifréttir ræddu við Steingrím Jónsson hafeðlisfræðing og Steven Campana líffræðing um þessi mál. Báðir eru prófessorar, Steven við Háskóla Íslands og Steingrímur við Háskólann á Akureyri, og hafa árum saman hvor með sínum hætti stundað rannsóknir á þeim breytingum sem verða í hafinu þegar andrúmsloft jarðar hlýnar. Steingrímur beinir sjónum sínum að hafinu sjálfu, eiginleikum þess og eðli, en Steven skoðar frekar lífríkið í hafdjúpunum.

Norður eða niður

Steven Campana hefur í rannsóknarvinnu sinni sérstaklega skoðað áhrifum hlýnunar í hafi á fisktegundir, hvar þær halda sig og hvort þær færa sig til í hafinu.

„Við höfum skoðað þetta fyrir fjölmargar tegundir á hafsvæðinu umhverfis Ísland,“ segir hann. „Niðurstöðurnar hafa verið þær að þegar hafið hefur hlýnað á tilteknu ári þá hefur fiskurinn almennt hreyft sig annað hvort norður á bóginn eða dýpra niður í hafið þar sem er kaldara. Þannig að þeir voru að reyna að halda sig á sama hitastigi og þeir hafa vanist.“

Ekki sé þetta þó einhlítt. Almennt hafi um það bil tvær af hverjum þremur fisktegundum hagað sér svona, fært sig norðar eða niður á við þegar hlýnar.

„Þá eru sumar tegundir viðkvæmari fyrir hitabreytingum og þess vegna líklegri til að hreyfa sig, en aðrar geta ráðið við svo breitt hitasvið að þær hreyfðu sig ekkert sérlega mikið til.“

Þorskurinn er ein þessara tegunda, sem virðist þola hitabreytingar býsna vel. Loðnan aftur á móti virðist bregðast mjög hratt við hitabreytingum.

„Það er vegna þess að hún heldur sig ofarlega í hafinu, en þar eru hitabreytingarnar hraðastar. Þær breytingar sem ná dýpra niður gerast miklu hægar. Loðnan færir sig hratt til að komast í hentugri hita. Svo má reikna með að hún elti líka fæðuna, allir fiskar gera það.“

Hitinn ræður mestu

Almennt séð þá segir hann hitastigið sennilega ráða mestu um ferðir tegundanna um hafið.

„Það er einfaldlega vegna þess að ef hitinn fer út fyrir hagstæðasta sviðið þá fara þær af stað til þess að forðast það. Hvað loðnuna varðar þá á hún samt eftir að halda áfram að koma og fara, þótt ekki sé nema vegna náttúrulegra sveiflna. Á því er enginn vafi. Jafnvel þótt engin loftslagshlýnun yrði þá myndu náttúrulegar sveiflur valda því að hún kemur og fer, líka þótt hitinn haldist óbreyttur.“

  • Steven Campana líffræðingur hefur skoðað hvernig fiskar laga sig að breytingum í hafi. MYND/AÐSEND

Steven bendir einnig á að hitastigið í hafinu hafi ekki hækkað stöðugt ár eftir ár, heldur fari það stundum upp og stundum niður.

„Ef hlýnaði eitt árið færðu tegundirnar sig svolítið norður á bóginn, en síðan ef kólnaði aftur næsta ár þá færðu þær sig aftur til suðurs. Almennt hefur samt hreyfingin undanfarin 20 ár eða svo verið til norðurs, og eftir því sem hlýnun andrúmsloftsins verður meiri þá getum við búist við því að það haldi áfram.“

Hann segir þó alls konar þætti geta haft áhrif á dreifingu fiskanna. Auk hitans megi þar nefna fæðuframboð, stofnstærð og seltu í hafinu.

„Ef mikið er af loðnu eitt árið, til dæmis, þá verður hörð samkeppni meðal þeirra innbyrðis. Fiskarnir keppa bæði um fæðu og maka og þá getur dreifingin orðið meiri, en ef loðnustofninn minnkar þá heldur hann sig samþjappaðri á góðu svæðunum, hvar sem þau eru.“

Vitneskjan orðin meiri

Steingrímur Jónsson hafeðlisfræðingur er spurður sérstaklega út í nýjustu loftslagsskýrslu Sameinuðu þjóðanna og hvað hvað helst megi lesa út úr henni um hafið í kringum Ísland. Hann segir að í sjálfu sér sé ekki mikið af nýrri þekkingu í skýrslunni.

„Þetta er bara staðfesting á því sem áður hefur verið sagt, en við erum kannski vissari um vissa hluti af því líkönin eru orðin betri, tölvurnar orðnar betri og athuganirnar sem liggja á bak við eru meiri og tímaraðirnar lengri.“

Steingrímur segir loftslagsbreytingar hafa þekkst á öllum tímum.

„Við höfum haft kuldaskeið og hlýskeið hérna við Ísland, og eitt þessara kuldaskeiða stóð í þrjátíu ár frá 1965 til 1995. Hækkun hitastigs í sjó hér hefur að einhverju leyti orðið vegna náttúrulegs breytileika, en við vitum í rauninni ekki skiptinguna á því hvað er vegna náttúrulegs breytileika og hvað er vegna hnattrænnar hlýnunar.“

Þá segir hann ekkert víst að hlýi sjórinn sem hefur streymt hingað síðan 1995 haldi því áfram.

„Það getur alveg komið eitthvert kuldakast, en þá verður það ferskvatnið sem veldur því. Það verður kannski ekki eins mikið og áður en það gæti alveg komið. Svo er sjórinn alls staðar á hreyfingu, þannig að hitaaukningin er ekki sama alls staðar.“

Mælingar í 60 ár

Steingrímur segir að koldíoxíð hafi verið mælt í andrúmsloftinu í 60 ár, þannig að ekkert fari á milli mála að það hafi verið að aukast.

„Það hefur verið að aukast hraðar og hraðar, en svo hefur aðeins dregið úr þessu síðustu tvö ár. Koldíoxíð í andrúmsloftinu hefur ekki minnkað en það hefur dregið úr aukningunni. Kannski var þetta covid ástand að hafa þar einhver áhrif, en samt hefur það aldrei aukist jafn mikið á neinu fimm ára tímabili eins og eftir að Parísarsáttmálinn var undirritaður. Þannig að við erum bara rétt að byrja á að reyna að minnka þetta.“

Breytingar gerast hægar í sjónum en í andrúmsloftinu, og Steingrímur segir það mega rekja til þess að andrúmsloftið blandast mun hraðar en sjórinn.

„Það tekur kannski mánuð eða eitthvað svoleiðis í andrúmsloftinu, þannig að það er alveg sama hvar þú mælir koldíoxíð. Það er nánast alls staðar eins, hvort sem það er mælt í Vestmannaeyjum eða á Suðurskautinu. Hins vegar tekur það sjóinn þúsund ár að endurnýja sig algjörlega. Hann er tregari til þess að breyta sér.“

Næringarsnautt ferskvatnið

Með aukinni bráðnun jökla og hafíss verður meira ferskvatn í hafinu og það hefur síðan einnig þau áhrif að lagskipting í sjónum er að aukast.

„Ferska vatnið er léttara og heita vatnið er líka léttara, þannig að við erum víða að fá léttara yfirborðslag og þá er auðvitað erfiðara að blanda því við sjóinn sem er fyrir neðan.“

Þetta allt saman skiptir miklu máli fyrir lífríkið við Ísland og þar með afkomu tegundanna sem hér hafast við. Yfirleitt sé betra ef þessi lagskipting er ekki of sterk, en eitt af því sem hefur áhrif á þessa lagskiptingu á okkar slóðum er bráðnun Grænlandsjökuls.

„Hún getur leitt til þess að það komi meira ferskvatn inn til okkar, og það eykur lagskiptinguna og þá dregur úr framleiðninni. Við höfum alveg séð það að þegar ískaldur og seltulítill sjór kemur vestan frá Grænlandi, þá eykst lagskiptingin og það dregur úr framboði næringarefna. Þessi kaldi sjór þarna fyrir vestan, hann er líka miklu næringarsnauðari, þannig að óskastaðan er að fá meiri sjó að sunnan sem er bæði heitari, saltari og næringarríkari en einnig hefur hann veikari lagskiptingu.“