Loðnuleiðangur sem líklega verður sá síðasti að þessu sinni hófst út af Vestfjörðum á laugardag er áhöfnin á Árna Friðriksson tók til við mælingar.

Gert er ráð fyrir því að Heimaey VE leggi úr höfn í Vestmannaeyjum um hádegisbil í dag og haldi austur fyrir land og verði þar við mælingar ásamt Polar Ammassak sem leggja mun úr höfn í Neskaupstað í kvöld eða fyrramálið.

Svanasöngur Bjarna Sæmundssonar?

Eins og fram hefur komið í Fiskifréttum munu uppsjávarskipin tvö hefja loðnuleit út Langanesi og vinna sig svo til móts við Árna Friðriksson og kortleggja stöðuna fyrir norðan land. Áætlað er að þegar því er lokið muni Árni Friðriksson leita aftur norðvestur af landinu þannig að farin verður tvöföld yfirferð á því svæði áður en allt að fimmtán daga leiðangri rannsóknaskipsins er lokið.

Rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson er nú fyrir norðan land en þótt skipið sé með bergmálsmæla í gangi tekur það ekki beinan þátt í loðnurannsóknum heldur er það við sjómælingar þar sem verið er að meta ástand sjávar. Mögulega er um síðustu för Bjarna að ræða fyrir Hafrannsóknastofnun því hið nýja rannsóknaskip, Þórunn Þórðardóttir, er væntanlegt til landsins innan tíðar.