Verð á síld bæði til útflutnings og til sjómanna hefur stigið til himins í ár. Útflutningsverð á síldarflöppsum hefur aldrei verið hærra en í nýliðnum aprílmánuði eða 10,98 NOK kílóið að meðaltali, jafnvirði 228 ISK. Verðið í ár er 65% hærra en í fyrra.

Svipaða sögu er að segja af frystri norsk-íslenskri síld en það sem er af árinu hefur meðalverðið verið 55% hærra en á sama tíma í fyrra. Útflutningsverðið hefur verið að meðaltali 5,91 NOK kílóið (123 ISK) samanborið við 3,82 NOK í fyrra (79 ISK).

Þessar tölur eru frá Norska fiskútflutningsráðinu og eru birtar í Fiskeribladet/Fiskaren. Þar kemur einnig fram að útflutningur á síldarflöppsum hafi verið álíka mikill í ár og í fyrra á sama tíma eða 53.000 tonn. Hins vegar hafi útflutningur á norsk-íslenskri síld dregist saman úr 199.000 tonnum í 134.000 tonn.

Samdráttur kvótans hefur stuðlað að tvöföldun á hráefnisverði til sjómanna eða úr 2,18 NOK kílóið (45 ISK) fyrstu fjóra mánuðina í fyrra í 4,38 NOK (91 ISK) í ár.