Hraðfrystihúsið-Gunnvör  í Hnífsdal (HG) og Vinnslustððin í Vestmannaeyjum (VSV) hafa samið um smíði tveggja ísfisktogara í Kína sem byggðir verða eftir íslenskri hönnun. Skipin munu kosta um 1,5 milljarða króna fullbúin hvort um sig.

Í frétt á vef HG segir að skip þess verði afhent eftir 18 mánuði. Þetta sé stærsta einstaka fjárfesting sem gerð hafi verið í sjávarútvegi á Vestfjörðum um langa hríð. Fyrirtækið gerir nú út ísfiskstogarana Pál Pálsson og Stefni, frystitogarann Júlíus Geirmundsson auk nokkurra smærri báta. Þörf hafi verið á endurnýjun á hluta skipa HG sem komin eru til ára sinna.

Tölvuteikning af nýju skipi Vinnslustöðvarinnar
Tölvuteikning af nýju skipi Vinnslustöðvarinnar
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Í frétt á vef VSV segir að nýsmíði fyrirtækisins verði afhent á árinu 2016 og leysi af hólmi hinn 42 gamla ísfisktogara Jón Vídalín VE. Nýja skipið verði 60% aflmeira en Jón Vídalín án þess að olíunotkunin aukist að sama skapi. (sjá meðfylgjandi tölvuteikningu af nýsmíði VSV)

Í fréttatilkynningu HG segir að eftir að hafa velt upp möguleikanum á að kaupa notað skip eða að endurbyggja Pál Pálsson ÍS, hafi HG gengið til samstarfs við Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum (VSV) árið 2010 um þarfagreiningu  varðandi hönnun og smíði á nýjum togurum. Við hönnunina, sem var í höndum Verkfræðistofunnar Skipasýnar og starfsmanna HG og VSV, hefði verið  lögð megináhersla á eftirfarandi:

-  Í fyrsta lagi að aðstaða til vinnslu afla væri sem best til að tryggja gæði hráefnisins og nýtingu alls afla, þ.m.t. aukahráefnis s.s. lifrar og slógs.

-  Í annan stað var lögð sérstök áhersla á orkusparnað við hönnun skrokka skipanna og við val á framdrifsbúnaði, auk þess sem togvindur verða rafdrifnar.

-  Sjálfvirkni tækjabúnaðar á millidekki, í lest og við löndun.

-  Að allur aðbúnaður áhafnar verði í samræmi við nútímakröfur.

Niðurstaðan varð sú að skipin verða 50,7 metrar að lengd og 12,8 metra breið. Vegna nýstárlegrar hönnunar á skrokkum skipanna og mun stærri skrúfu heldur en nú tíðkast á þessari stærð skipa, er áætlað að þau hafi um 60% meiri veiðigetu en þau skip sem þau leysa af hólmi án þess að eyða meiri olíu. Þá verða skipin búin þremur rafdrifnum togvindum og geta því dregið tvö troll samtímis.

HG og VSV leituðu tilboða í smíði á skipunum, frá skipasmíðastöðvum í Danmörku, Noregi, Póllandi, Tyrklandi og Kína og reyndist tilboð frá Huanghai skipasmíðastöðinni í Rongcheng í Kína hagstæðast og tókust samningar við þá stöð.

Sjá nánar ummæli framkvæmdastjóra HG á vef fyrirtækisins .