Japönsk yfirvöld geta í þessum mánuði nýtt nýjar heimildir í lögum til þess að refsa þeim sem virða ekki reglur og veiðiheimildir í veiðum á bláuggatúnfiski. Þetta verður gert í samræmi við strangari reglur þeirra landa sem stunda veiðarnar, en bláuggatúnfiskur er ein verðmætasta fisktegund heims og mikið nýtt í hinum vinsælu japönsku réttum sushi og sashimi. Ekki síst til dýrra veitingastaða þar í landi.
Samkvæmt Japan Times vonast japönsk yfirvöld til að nýjar reglur komi til með að koma böndum á veiðarnar, en flest bendir til þess að svo mjög hafi verið gengið á stofna bláuggatúnfisksins að hann sé í raunverulegri útrýmingarhættu.
Ofveiði
Það er Kyrrahafsfiskveiðiráðið (The Western and Central Pacific Fisheries Commission) sem setur fram ráðgjöf um aflaheimildir tegundarinnar – sem nær bæði til veiða Japana og Bandaríkjamanna. Á grunni þeirra kvóta hafa Japanir deilt út heimildum til veiða til þarlendra sjómanna, sem hafa þó ítrekað farið fram úr heimildum sínum. Það hefur aftur sett spurningamerki við hversu haldgott það fyrirkomulag er sem starfað hefur verið eftir til þessa.
Undir nýju fyrirkomulagi þurfa sjómenn að tilkynna yfirvöldum strax um aflabrögð, sem gefur stjórnvöldum tækifæri til þess að gefa út veiðibann á hendur þeim sjómönnum sem eru líklegir til þess að veiða meira en þeir hafa heimildir til.
Og japönsk stjórnvöldum er alvara. Viðurlögin við því að ganga gegn nýjum reglum eru allt að þriggja ára fangelsi eða háar sektir. Til samanburðar hefur hingað til ekki verið um neinar heimildir til refsinga að ræða í japönskum laga- og reglugerðabálkum.
Nýjustu tölur um stofn bláuggans greina að veiðiþolið sé lítið enda veiðistofninn talinn vera um 17.000 tonn. Stofninn í heild sinn er talinn vera 2,6% af sögulegu hámarki. Því hefur ráðgjöf WCPFC verið skorin niður ár frá ári, án árangurs.
Markmiðið með alþjóðlegum takmörkunum á veiði bláuggans stefna að því að veiðistofn tegundarinnar verði kominn í 41.000 tonn árið 2024 og í 130.000 tonn árið 2034.