Nýlokið er síldveiðum á Breiðafirði þar sem Fiskistofa hélt uppi öflugu eftirliti. Eftirlitsmenn á vegum stofnunarinnar voru um borð í 78 veiðiferðum af samtals 81 veiðiferð 16 skipa sem stunduðu nótaveiðar á svæðinu.

Fiskistofa réði sex eftirlitsmenn, sem flestir voru búsettir á Snæfellsnesi, tímabundið til að sinna eftirliti með þessum síldveiðum á Breiðafirði ásamt fastráðnum eftirlitsmönnum Fiskistofu.

Veiðarnar, sem hófust um 10. okt. og stóðu til 10. des., fóru að mestu leyti fram á svæðinu frá Grundarfirði austur undir Stykkishólm. Alls stunduðu 16 skip á vegum 10 útgerða veiðar með síldarnót á tímabilinu. Veiðiferðarnar voru líkt og áður segir 81 og stóðu yfir í alls 177 daga. Eftirlitsmenn Fiskistofu voru um borð í 78 veiðiferðum í alls 172 daga. Var þannig eftirlitsmaður um borð í öllum veiðiferðum að 3 undanskildum. Við eftirlit Fiskistofu komu upp 4 brotamál sem öll eru í vinnslu.

Það er mat Fiskistofu að vel hafi tekist til við eftirlit með síldveiðum í nót á Breiðafirði, segir í vef stofunnar.