Aðgerðaráætlunin var kynnt í síðustu viku. Þar kemur meðal annars fram að gerð verði áætlun um orkuskipti í ferjum, þar á meðal í Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi. Markmið þeirrar áætlunar verði að eigi síðar en með næstu endurnýjun muni ferjurnar eingöngu nýta kolefnislausa orkugjafa.

Varðandi Herjólf sérstaklega segir ríkisstjórnin að nýr Herjólfur muni sigla á landrafmagni milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja. Um borð verði auk þess eldsneytisknúinn rafall sem framleiði rafmagn til að knýja ferjuna þegar sigla þarf til Þorlákshafnar, eða á öðrum lengri leiðum.

Raftenging í höfnum
Þá stefnir stjórnin að því að framboð rafinnviða fyrir skip í höfnum verði aukið.

„Stefnt verður að því að raftengingar sem fullnægja raforkuþörf til allrar almennrar starfsemi skipa í höfnum verði aðgengilegar fyrir 2025,“ segir í áætlunin.

„Fyrst í stað verður lögð áhersla á uppsetningu lágspennuinnviða, sem flest fiskiskip og önnur smærri skip geta nýtt sér. Síðar verður greindur möguleiki á uppsetningu háspennuvirkja í höfnum út frá mögulegum árangri og kostnaði, en þar er meiri óvissa um hagkvæmni og ávinning miðað við tilkostnað.“

Þá hyggjast stjórnvöld tryggja eins og unnt er að hagkvæmt verði að nýta raforku til bræðslu frekar en olíu.

„Á undanförnum árum hefur mikill árangur náðst við rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja að frumkvæði fyrirtækja í þeim rekstri,“ segir í áætluninni. „Markmiðið er að öll fiskimjölsframleiðsla verði rafvædd fyrir 2030.“

Svartolíunotkun fösuð út
Ennfremur er stefnt að minnkun á svartolíunotkun við strendur Íslands með það markmið í huga að fasa notkun svartolíu endanlega út.

Leita þarf leiða til þess að svo verði í samræðum milli ríkis, orkufyrirtækja og samtaka fiskimjölsframleiðenda. Með þessu er fylgt eftir þingsályktun um aðgerðaáætlun um orkuskipti, sem samþykkt var á Alþingi 31. maí 2017.

„Slíkt er í samræmi við ákvæði í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna um að stefna að því að banna notkun svartolíu í efnahagslögsögu Íslands,“ segir í áætluninni. Hins vegar þurfi að skoða það í samhengi við alþjóðaskuldbindingar, því slíkt bann þurfi samþykki Alþjóða siglingamálastofnunarinnar (IMO). Það gæti orðið snúið.

„Íslensk stjórnvöld geta hins vegar sett einhliða reglur um takmarkaðra bann, sem næði til 12 mílna landhelgi eða til hafna og nærsvæða og fjarða.“

Orkuskipti í skipaflota
Ennfremur boðar stjórnin að leitað verði til að auka hlutdeild endurnýjanlegs eldsneytis í skipaflotanum. Á vegum stjórnvalda er unnið að Vegvísi um losun í sjávarútvegi og á hann að liggja fyrir á þessu ári.

„Á grunni tillagna sem þar koma fram verða mótuð verkefni varðandi orkuskipti í fiskiskipum í samvinnu ríkis og hagsmunaaðila, s.s. með tilraunaverkefni um nýja og loftslagsvæna orkugjafa í skipum. Framfarir á þessu sviði tengjast einnig möguleikum á innlendri eldsneytisframleiðslu úr jurtum og úrgangi,“

Þá verður loftslagssjóður verður settur á laggirnar og fær sjóðurinn fjármagn til að veita styrki frá og með árinu 2019.

„Ákvæði um sjóðinn voru sett í lög árið 2012, en sjóðurinn hefur ekki fengið fjármagn og því ekki tekið til starfa.“ Gert er ráð fyrir 50 milljón króna framlagi í sjóðinn á árinu 2019 og 100 milljónum króna árið 2020.