„Hlutverk hins opinbera hvað atvinnulífið varðar er fyrst og fremst að tryggja innviði og jarðveg þar sem burðug fyrirtæki fá notið sín og öflugir einstaklingar geta fundið orku sinni farveg. Það er átakanlegt að verða vitni að því hvernig vöntun á samgöngum eru núna að kosta sjávarútvegin hér í Eyjum ómælt fé svo ekki sé nú minnst öll óþægindin,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, um stöðu sjávarútvegsfyrirtækja í Eyjum. Herjólfur annar engan veginn eftirspurn þeirra um flutninga; tækifæri tapast og hráefni skemmist með tilheyrandi fjárhagslegu tjóni.
Skýlaus krafa
Forsvarsmenn sjávarútvegsfyrirtækja í Vestmannaeyjum auk bæjaryfirvalda sendu í síðustu viku Bjarna Benediktssyni, forsætisráðherra, auk fjögurra fagráðherra í ríkisstjórn hans, bréf þar sem hvatt er til tafarlausra umbóta í samgöngum milli lands og Eyja.
Forsendur bréfsins, sem ellefu forsvarsmenn fyrirtækja og bæjarins undirrita, eru að allar greinar sjávarútvegs þar í bæ líða nú fyrir ónógar samgöngur. Þær ferðir sem þó séu farnar þjóni vart ferðaþjónustunni einni og sér, hvað þá sjávarútvegi eða íbúum í Eyjum. Með bréfinu er gerð sú krafa að ferðum Herjólfs í sumaráætlun verð tafarlaust fjölgað í átta á hverjum sólarhring alla vikuna. Einungis þannig sé hægt að skapa samfélaginu þau miklu verðmæti sem fyrirtækin hafi burði til.
Ekki við náttúruöfl að etja
„Hér er ekki við náttúruöfl að etja heldur vantar einfaldlega að taka ákvörðun um að láta þetta blessaða skip sigla fleiri ferðir,“ segir Elliði. „Kostnaðurinn við hverja ferð er ekki hár í samhengi við þau verðmæti sem eru undir.“
Elliði bendir á að Vestmannaeyjar leggi til samneyslunnar rúmlega tíu milljarða á hverju ári í formi skatta og um 70% af þeirri upphæð sé nýtt annars staðar en í Eyjum.
„Þegar búið er að draga frá allan kostnað af rekstri ríkisins hér í Eyjum svo sem vegna Herjólfs, Landeyjahafnar, lögreglu, sjúkrahúss og fleira, standa þá eftir um 7.000 milljónir. Nú benda fyrirtækin á að of fáar ferðir Herjólfs séu að skaða þau þannig að ekki sé hægt að vinna þessi verðmæti. Þetta er ekki flókið reiknisdæmi, það margborgar sig fyrir okkur öll að fjárfest sé í innviðum. Það þarf að fjölga ferðum Herjólfs strax,“ segir Elliði.
Undirritaðir minna einnig á mikilvægi þess að þegar vetraráætlun í Þorlákshöfn tekur við mun vandinn enn aukast verði ekki gripið til aðgerða.
„Hafa þarf hugfast að sjávarútvegsráðherra hefur nýverið tekið ákvörðun um aukningu á fjölmörgum nytjastofnum. Eðlilega veldur það auknu álagi á flutningskerfið og mikilvægt að fyrirtæki verði ekki hindruð í að nýta þau tækifæri sem í því eru fólgin,“ segir í bréfinu.