Sex íslenskir frystitogarar hafa að undanförnu verið að veiðum í norskri og rússneskri lögsögu í Barentshafi. Eitt þessara skipa er Venus HF og að sögn Haraldar Árnasonar, sem er skipstjóri í veiðiferðinni, er óhemjumagn af fiski á helstu miðum, s.s. á svokölluðu Malagagrunni og Fugleyjarbanka í norsku lögsögunni þar sem íslensku skipin hafa mest verið að veiðum.
,,Þorskkvótinn í Barentshafi var aukinn um 200 þúsund tonn og eitthvað hafa menn haft fyrir sér varðandi þá ákvörðun. Það er a.m.k. ljóst að það er nóg af þorski og helsta vandamálið er að það getur verið erfitt að tempra aflann. Okkar draumaskammtur þegar við erum að vinna þorskinn roðlausan og beinlausan er um átta til tíu tonn í holi en það þýðir ekkert að treysta aflanemunum eða öðrum tækjum. Maður verður að treysta á hyggjuvitið. Stundum fæst lítið en svo getur innkoman í trollið verið mjög mikil,“ segir Haraldur í samtali á vef HB Granda.
Það hefur ekki farið fram hjá neinum, sem fylgist með fréttum af sjávarútvegi, að verð á þorski hefur farið lækkandi á mörkuðum og mest verðlækkun hefur orðið á stærri þorski. Haraldur segir þessa þróun vera slæma, ekki síst vegna þess að meðalþyngdin á þorskinum í Barentshafi sé að hækka.
,,Við erum að fá mikið af þorski sem er fimm til sex kíló að þyngd upp úr sjó. Á sama tíma og þorskurinn fer stækkandi þá kallar markaðurinn á smærri þorsk,“ segir Haraldur.
Íslensku skipin eru nú flest að veiðum út af nyrsta hluta Noregs eða í nágrenni Kirkenes. Auk Venusar hafa Kleifaberg og Mánaberg verið að veiðum í norsku lögsögunni. Þór er á leiðinni yfir í rússnesku lögsöguna eftir að hafa veitt kvóta sinn í þeirri norsku og Málmey er á leiðinni á sama veiðisvæði og Venus er nú á. Þá er Gnúpur á heimleið eftir að hafa náð kvóta sínum.