Brjóstsykurmolar sem upphaflega voru þróaðir við munnþurrki og í tannverndarskyni nýtast einnig gegn sjóveiki og annarri ferðaveiki.

Víða í apótekum landsins má sjá litríka pakka með molum sem nefnast HAp+. Molarnir örva munnvatnsframleiðslu og þrátt fyrir að vera súrir skemma þeir ekki tennur.

„Tannlæknafélag Íslands mælir með HAp+ molunum og þetta er eini molinn sem viðheldur heilbrigði tanna á heimsvísu.“ segir Þorbjörg Jensdóttir, harla stolt af afurðinni sem hún þróaði í doktorsnámi sínu við Kaupmannahafnarháskóla.

„Þessi vara er íslenskt hugvit og gaman að segja frá því, og það liggja 20 ár að baki þróun HAp+,“ segir Þorbjörg.

Hún er upphaflega næringarfræðingur og í tengslum við meistaranám sitt við Háskóla Íslands tók hún að skoða glerungseyðandi áhrif drykkja, en það var gert í samstarfi við Tannlæknafélag Íslands. Þorbjörg fór í framhaldinu í doktorsnám til Kaupmannahafnar í Munnlyflækningum þar sem þróun HAp+ komst á skrið.

Þorbjörg er með aðstöðu í Íslenska Sjávarklasanum en ólíkt mörgum öðrum vörum sem frumkvöðlar þar hafa þróað og sett á markað eru HAp+ molarnir ekki unnir úr sjávarafurðum af neinu tagi. Óvæntar en jákvæðar aukaverkanir tengjast þó hafinu og gera molana eftirsóknarverða fyrir þá sem eiga það til að þjást af sjóveiki.

Slær á sjóveiki

„Varan er ekki þróuð upprunalega sem sjávartengd vara, en það kemur í ljós eftir að hún er sett á markað að hún vinnur gegn sjóveiki ásamt annari ferðaveiki og ógleði. Hvalaskoðunarfyrirtæki hafa verið að bjóða molana sínum viðskiptavinum um borð,“ segir Þorbjörg.

„Upprunalega var HAp+ þróað sem munnvatnsörvandi miðill fyrir einstaklinga með munnþurrk. Við fengum vísi að því að HAp+ ynni gegn ógleði þegar einstaklingar í krabbameinsmeðferð sóttu í molana sem bót við munnþurrk vegna lyfjameðferðar, en þá kemur einnig í ljós að molarnir slógu einnig á ógleðina. Þá var farið að gefa börnunum í bíltúrum HAp+ mola og þá lagaðist bílveikin. HAp+ vinnur almennt gegn ferðaveiki, bílveiki, sjóveiki, flugveiki. En þetta er það sem markaðurinn hefur kennt okkur um vöruna.“

Sérstaða á heimsvísu

„HAp+ molinn er klínískt prófaður og vísindalega sannaður að vera súr án þess að valda glerungseyðingu, og það gefur honum sérstöðu á heimsvísu. Þetta er eina súra matvaran sem við þekkjum til sem er súr en ekki glerungseyðandi“

Þorbjörg segir HAp+ vöruna einkaleyfisverndaða í fjórum heimsálfum. Einnig er varan gæðaprófuð eftir hverja framleiðslu þannig að staðfest er í hvert sinn að virknin sé til staðar.

„Sýra er náttúrulegur munnvatnsörvandi miðill og við höfum vitað það lengi. Sem dæmi þá hefur fólk hefur verið að fá sér kók í gegnum tíðina þegar því verður óglatt. Það er þá sýran sem er meðal annars að slá á óbragðið og ógleðina. En sýran er líka versti óvinur tannanna og þar af leiðandi er ekki í boði að bjóða viðstöðulaust sýru. Sérstaklega ef fólki er óglatt í lengri tíma, að þá er mikilvægt að hafa í huga að sykurlausar súrar vörur eru í lang flestum tilfellum glerungseyðandi. Einkenni glerungseyðingar er mikil næmni fyrir hita og kulda, tannkul.“

Þorbjörg segir að lykillinn að virkni vörunnar sé nákvæmt hlutfall milli sýru og kalks.

„Sýran er virka efnið sem örvar munnvatnið, en nákvæmt hlutfall kalks í molanum hlutleysir neikvæða virkni sýru á tennurnar. Kalkið passar þannig upp á að sýran nái ekki að vinna á tönnunum en að öðru leyti fær sýran að vinna vinnuna sína með því að örva munnvatnið, sem er ónæmiskerfi munnholsins, og losa óbragð úr munni og auka kyngingartíðni.“

Þorbjörg er með aðsetur í Sjávarklasanum en alls starfa fjórir starfsmenn fast hjá fyrirtækinu IceMedico sem framleiðir og markaðssetur HAp+ tannvænu molana. Framleiðslan fer fram erlendis og nú er Þorbjörg komin til Noregs þar sem hún er að undirbúa sókn inn á Skandinavíu.