Norsku loðnuskipin eru að gefast upp á verunni við Ísland. Hjá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fengu Fiskifréttir þær upplýsingar í morgun að tíu skipanna hefðu haldið áleiðis heim til Noregs í gær. Tvö skip eru á leið til hafnar á Íslandi, en tíu skip eru enn úti fyrir Austfjörðum.

Veiðileyfi norsku skipanna rennur út á miðnætti annað kvöld. Norsk stjórnvöld óskuðu eftir því í fyrradag að reglur um veiðarnar yrðu rýmkaðar á þann veg leyfilegur veiðitími yrði lengdur og skipunum heimilað að fara suður fyrir þá línu sem dregin er út frá sunnanverðum Austfjörðum. Þessu erindi höfðu íslensk stjórnvöld ekki svarað þegar síðast fréttist.

Norski loðnuflotinn hefur veitt sáralítið af loðnu við Ísland á þessari vertíð. Á vef norska síldarsölusamlagsins kemur fram að þau hafi aðeins landað um 300 tonnum af Íslandsloðnu. Það kemur heim og saman við upplýsingar sem fengust hjá Fiskistofu en þar eru skráðar tvær landanir hérlendis, annars vegar 195 tonn og hins vegar 102 tonn. Norsku skipin hafa því ekki komið með neina loðnu til Noregs frá Íslandi í ár.