Um helmingur kvóta smábáta er í höndum útgerða sem reka jafnframt fiskvinnslu. Samþjöppun í litla kerfinu heldur áfram og krókaaflamarksbátum fækkar stöðugt. Tíu stærstu eiga 35% kvótans. Þetta kemur fram í samantekt í nýjustu Fiskifréttum.

Árið 2014 voru 10 stærstu útgerðir í krókaaflamarki með um 33,5% af kvótanum en í ár eru 10 stærstu með 35%. Meiri samþjöppun hefur átt sér stað hjá 20 stærstu útgerðunum. Þær fara úr 50% af kvótanum í byrjun árs 2014 í 53% í ár. Mest er aukningin hjá þeim 50 stærstu en þeir fara úr 73% í 79% á sama tíma.

Nokkrar smábátaútgerðir reka einnig fiskvinnslu og reyndar byrjaði sú þróun nokkuð snemma. Útgerðir með fiskvinnslu gera gjarnan út tvo eða fleiri báta. Skipstjórar eru ráðnir á bátana en eigendurnir róa ekki sjálfir. Smábátaútgerð með fiskvinnslu hefur eflst ár frá ári. Þessar útgerðir hafa flestar fest kaup á 30 brúttótonna bátum sem afkasta miklu og þurfa mikinn kvóta. Nú er svo komið samkvæmt samantekt Fiskifrétta að útgerðir með fiskvinnslu í litla kerfinu og tengdar útgerðir eru með að minnsta kosti tæp 50% af heildarkvóta í krókaaflamarki.

Önnur breyting hefur átt sér stað í smábátaútgerðinni en hún er sú að stór og hefðbundin útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki í aflamarkinu hafa sótt í krókaaflamarkið í einhverjum mæli til að auka fjölbreytni í hráefnisöflun.

Samhliða samþjöppun í krókaaflamarkinu og stækkun báta hefur bátunum fækkað. Í upphafi fiskveiðiársins 2015/2016 voru krókaaflamarksbátarnir 297 að tölu en í upphafi kvótaársins 2002/2003 voru þeir 488. Bátunum hefur því fækkað um 191 á þessu árabili, eða um tæp 40%.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.