„Stöðugt hefur sigið á ógæfuhliðina í fiskirannsóknum hér á landi,“ segir Jóhann Sigurjónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar í aðsendri grein í Fiskifréttum í dag. Til marks um það bendir hann á að rekstur rannsóknaskipa Hafrannsóknastofnunar hafi dregst saman um nánast helming á þessu ári miðað við síðasta ár. Úthald tveggja rannsóknaskipa stofnunarinnar er aðeins um 200 dagar samanlagt í ár, þar með talin leiga til Grænlands, en var 338 dagar í fyrra og mun meira á árum áður. Til samanburðar nefnir hann að Færeyingar hafi haldið úti sínu eina rannsóknaskipi í 240 daga í fyrra og úthald norsku rannsóknaskipanna hafi verið 1600 dagar.
Forstjóri Hafrannsóknastofnunar bendir á að rannsóknir séu forsenda skynsamlegrar nýtingar fiskistofnanna og nokkurra milljóna rannsóknakostnaður geti skapað forsendur fyrir milljarða króna verðmæti í öflun sjávarfangs. Þá vekur hann athygli á að Hafrannsóknastofnun sinni í vaxandi mæli miðlun upplýsinga til kaupenda íslenskra sjávarafurða varðandi ástand fiskistofna á Íslandsmiðum. „Að þrengt sé svo að grunnstarfsemi Hafrannsóknastofnunar, eins og nú er gert, er hættuspil. Hér er orðspor Íslands og forskot í markaðslegu tilliti vegna ábyrgra fiskveiða í hættu,“ segir Jóhann Sigurjónsson.
Sjá nánar grein Jóhanns í nýjustu Fiskifréttum.