,,Heilt yfir var þetta ágæt veiðiferð en það má reyndar segja að við höfum haft töluvert fyrir veiðinni. Við fórum hringinn í kringum landið og það er frekar sjaldgæft að það gerist,” segir Heimir Guðbjörnsson, fyrsti stýrimaður og afleysingaskipstjóri á Helgu Maríu AK í viðtali á heimasíðu HB Granda. Skipið kom til hafnar nú um helgina eftir 28 daga veiðiferð. Aflaverðmætið í túrnum er áætlað um 105 milljónir króna.
Að sögn Heimis var mesta áherslan lögð á það í veiðiferðinni að veiða ýsu og ufsa en ufsaveiðar hafa gengið frekar treglega frá áramótum.
,,Það gekk s.s. ekkert of vel að finna ufsa í veiðanlegu magni en þetta hafðist þó á endanum. Heildaraflinn var rúmlega 100 tonn af ýsu og svipað magn af ufsa og svo um 130 tonn af þorski og litlu meira af karfa,” segir Heimir en hann upplýsir að fyrst hafi verið farið til veiða á Eldeyjarbanka og svokallaðri Belgableyðu sem er suður af bankanum. Á báðum stöðum var veiðin aðallega ýsa og karfi en einnig fékkst nokkuð af ufsa. Á þessum slóðum var skipið að veiðum í um vikutíma.
,,Þaðan fórum við svo norður á Kögurgrunn sem er vestur af Ísafjarðardjúpi. Þar var töluvert af ýsu og einnig fremur smáum þorski og skyndilokanir voru því tíðar. Við ákváðum við að fara austur fyrir land og byrjuðum veiðarnar á Digranesflaki sem er út af Vopnafirði. Þar fengum við um 50 tonn af ýsu á tveimur dögum. Aðstæður voru óvenjulegar að því leyti að þarna var mjög kaldur sjór eða frá um 0°C og upp í 2°C og ýsan hélt sig þar sem sjórinn var hlýrri.”
Næst var ferðinni heitið suður í Berufjarðarál og þar segir Heimir að hafi verið nokkur ufsaveiði en þó ekki mikil. ,,Við ákváðum því að fara út á Þórsbanka og þar fengum við ufsa og einnig þorsk sem reyndar veiddist einnig á flestum hinna veiðisvæðanna,” segir Heimir en að hans sögn var ákveðið að sigla suður fyrir land á leiðinni heim og þar með var hringnum lokað fjórum vikum eftir að veiðiferðin hófst