Norskir vísindamenn hafa lokið yfirferð sinni yfir útbreiðslusvæði makríls á þeirra hafsvæði. Engar endanlegar niðurstöður liggja fyrir en fyrstu vísbendingar benda til þess að heldur minna hafi verið af makríl á svæðinu en áður, að mati leiðangursstjóra norsku skipanna tveggja sem tóku þátt í rannsókninni.

Þetta kemur fram á vef norsku hafrannsóknastofnunarinnar . Þá var munur á makrílafla milli nærliggjandi togstöðva meiri en áður sem bendir til þess að makríllinn hafi þjappað sig meira saman í torfur. Yfirborð sjávar í júlí hefur yfirleitt verið kaldara en áður sem jafnan virkar hamlandi á útbreiðslu makríls. Það vakti því athygli að tiltölulega stór höl fengust á norðvesturhluta svæðisins en minna í hlýrri sjó austar.

Sem kunnugt er stendur nú yfir leiðangur við Ísland og Grænland þar sem verið er að kortleggja magn og útbreiðslu makríls á því hafsvæði.