Hafstraumurinn El Nino varpar nú skugga yfir ansjósuveiðar Perúmanna en hafstraumurinn setur veðrakerfið í Kyrrahafið á annan enda á tveggja til sjö ára fresti. Fyrir vikið hefur heimsmarkaðsverð á fiskimjöli rokið upp.

Perúmenn eru mestu fiskmjölsframleiðendur í heimi og framboð á mjöli frá þeim stjórnar heimsmarkaðsverði að miklu leyti. Ástæðan er gríðarlegt magn ansjósu undan ströndum Perú. Nú ógnar El Nino hafstraumurinn þessum veiðum en hafstraumurinn getur haft áhrif á veður á þessum slóðum í allt að 22 mánuði.

Perúmenn veiða ansjósu á tveimur tímabilum, frá maí til júlí og síðan frá nóvember til janúar. Vegna hættunnar á því að El Nino eyðileggi seinni helming ansjósuvertíðarinnar ákváðu perúsk stjórnvöld að heimila veiðar á fyrra tímabili frá byrjun apríl.

Veiði hefur hins vegar verið dræm. Afleiðingin er lítil birgðastaða og það ásamt áhyggjum af þeim áhrifum sem El Nino mun valda hefur heimsmarkaðsverð á fiskmjöli rokið upp.

Léleg veiði nú gæti leikið perúska fiskmjölsiðnaðinn grátt. Hann er nýfarinn að rétta úr kútnum eftir mikið áfall í fyrra. Það ár kalla ansjósuveiðimenn „annus horribilis“, hræðilega árið, því á þessu ári ákváðu perúsk stjórnvöld að skera niður aflaheimildir á seinna veiðitímabili 2012 um 68%.