Nýlega fékk norskur sjómaður ferlíki í þorskanetin sem reyndist vera risastór skötuselur. Eftir því sem best er vitað er þetta stærsti skötuselur sem veiðst hefur í heiminum, að því er fram kemur í frétt í norska ríkissjónvarpinu.
Netin voru lögð í Høylandssundið og dregin á laugardaginn. Þegar komið var að netinu með skötuselnum reyndist það svo þungt að ekki var hægt að ná því upp. Sjómaðurinn, sem var einn um borð, hélt í fyrstu að netið hefði fest við botninn en þarna var 5 metra dýpi.
Sjómaðurinn náði að draga netið upp að síðunni og sigldi í land og fékk hjálp. Fjóra menn þurfti til að innbyrða skötuselinn sem vóg 115 kíló, var um 180 sentímetrar á lengd og meira en metri á breidd. Höfuðið eitt vó 64 kíló. En sjómaðurinn sagði að halinn og búkurinn hefðu samt dugað til að fylla frystinn!
Í febrúar 2010 veiddist 99 kílóa skötuselur við Noreg sem var sá stærsti í heimi en það met stóð sem sagt ekki lengur en tæpt ár.