,,Siglingin hefur gengið mjög vel. Við höfum verið með meðvind svo til alla leiðina og algengur siglingarhraði er um 13,5 til 14,0 mílur. Að öllu forfallalausu ættum við að vera í heimahöfn á Akranesi fyrir næstu helgi.“

Þetta sagði Albert Sveinsson, skipstjóri á Víkingi AK, er rætt var við hann laust upp úr hádeginu. Skipið var þá statt suður af Írlandi en Albert stýrir Víkingi á heimsiglingunni frá Tyrklandi þar sem skipið var smíðað. Í áhöfninni eru alls sjö manns.

,,Við fórum frá Tusla við Istanbul að kvöldi 5. desember og sl. föstudag fórum við um Gíbraltarsund og út á Atlantshaf. Stefnan var þá sett á Lands End, suðvesturodda Englands í Cornwall, og framundan er sigling vestan við Írland beint til Akraness,“ sagði Albert Sveinsson.

Þetta kemur fram á vef HB Granda.