Sjávarútvegsráð Evrópusambandsins hefur ákveðið að heimila útgerðarmönnum að geyma allt að 25% makrílkvótans fram á næsta ár. Tilgangurinn með þessu er sá að draga úr áhrifum innflutningsbanns Rússa á sjávarafurðir frá Evrópubandalagsríkjunum, Noregi og fleiri löndum. Skoskir sjómenn fagna þessari ákvörðun mjög.

Sjómenn frá löndum ESB hafa fram til þessa einungis getað geymt 10% kvótans til næsta árs. Ákvörðunin kemur einkum til móts við breska sjómenn sem segja að innflutningsbann Rússa þýði að 20% af heildarmakrílútflutningi þeirra leggist niður á sama tíma og veiðiheimildir þeirra eru í sögulegu hámarki.

Með ákvörðun ESB verða hugsanlega 72.500 tonn af óveiddum makríl breskra sjómanna af 290.000 tonn kvóta geymdur til næsta árs.